Það dugði að ýta við þeim
Í kjölfar fréttarinnar hér á heimasíðu FÍB um lækkun á heimsmarkaði á bensíni og dísilolíu hefur íslenski olíumarkaðurinn tekið við sér. N1 og dótturfyrirtæki þess EGO ganga á undan og lækka útsöluverðin hjá sér.
Bensínið hjá N1 kostar nú 133.40 krónur hver lítri í sjálfsafgreiðslu og dísilolían kostar 135.90 hver lítri. Samkvæmt heimasíðu EGO þá kostar bensínið þar nú 131.80 krónur hver lítri en dísliolían er komin niður í 131.30 krónur á lítra.
Þessi mikla lækkun á dísilolíu er athyglisverð þar sem hún er umfram þróun á heimsmarkaði en gæti verið viðbragð í samkeppni. Í framhaldinu verður athyglisvert að sjá hver viðbrögð Orkunnar verða, en Orkan auglýsir að fyrirtækið berjist fyrir lægra eldsneytisverði og notaði lengi og mikið slagorðið „Alltaf ódýrastir“ í auglýsingum sínum.
Meðan þessi frétt var í vinnslu lækkaði Olís eldsneytisverð hjá sér um eina krónu líkt og N1. Sömuleiðis var dótturfyrirtæki Olís, ÓB, einnig að lækka sín verð um eina krónu.