Þegar bílútvarpið var villtur lúxus

http://www.fib.is/myndir/Blaupunkt-litil.jpg


Um þessar mundir eru 75 ár síðan byrjað var að framleiða útvarpstæki sérstaklega í bíla í Evrópu. Þann 19. ágúst árið 1932 kynnti þýska fyrirtækið IFA í Berlín, sem seinna fékk nafnið Blaupunkt, fyrsta bílaútvarpstækið.

Þetta var mikill hlunkur sem vóg heil 15 kíló og tækið var gríðarlega orkufrekt, svo mjög raunar að sex volta jafnstraumsrafalar sem þá voru í bílum, höfðu varla undan að framleiða straum og var ekki mögulegt að hafa útvarpið í gangi og kveikt á ljósum samtímis. Ef það var gert og hvað þá ef líka var kveikt á miðstöðinni og þurrkunum, varð bíllinn fljótlega rafmagnslaus og drap á sér. Það gerði kannski ekki svo mikið til því að háspennnuþræðirnir í kveikjukerfinu trufluðu útvarpið svo mjög að varla heyrðist annað en taktfast truflandi brak þegar bíllinn var í gangi er háspennustraumurinn hljóp eftir kertaþráðunum í neistakertin.

En menn fundu fljótlega upp þétti til að draga úr og síðar að útrýma alveg háspennnuneistatruflununum og útvarpstæki í bíl þótti allt í einu gríðarlegur lúxus sem fáir gátu veitt sér. En það áttu eftir að líða mjög mörg ár áður en að útvarpstæki varð sjálfsagður hlutur í bíl og hér á Íslandi taldi ríkisvaldið tækin hinn mesta óþarfa og skattlagði sérstaklega bílaútvarpstæki langt fram á síðari helming síðustu aldar.

Þetta fyrsta hreinræktaða bílaútvarpstæki hét Autosuper 5 og þann 19. ágúst 1932 höfðu verið smíðuð um 400 stykki. Í því voru fimm glóðarlampar, enda var silikon-transistorinn langt í frá uppfundinn enn. Tækið var fokdýrt, kostaði 465 ríkismörk sem þótti ógurleg fjárhæð fyrir útvarpstæki því að hægt var að kaupa nýjan DKW eða Tatra smábíl fyrir sömu upphæð.

Þegar bílum tók að fjölga eftir stríð varð markaður fyrir bílaútvarpstæki vænlegri og ekki spillti fyrir að útsendingartækni batnaði og útvarpsútsendingar tóku að nást nánast hvar sem maður var á ferð. Þá bötnuðu tóngæðin mjög, ekki síst þegar FM útsendingar tóku að leysa lang- og miðbylgjuútsendingar af hólmi. Fyrstu bíltækin með FM móttöku komu á markað í Þýskalandi árið 1952 og fimm árum síðar komu fyrstu transistoraútvarpstækin fram. Þau voru miklu sparneytnari á rafmagnið en gömlu lampatækin og miklu fyrirferðarminni og léttari.
http://www.fib.is/myndir/Blaupunkt-st.jpg

Svona leit fyrsta bílaútvarpstækið út. Stöðvaleitarinn var í kassanum á stýristúbunni og sjálft tækið með sínum fimm glóðarlömpum var undir mælaborðinu.