Þeir eldri ekkert hættulegri ökumenn
Eldri ökumenn (karlar og konur) eru sem hópur alls engin ógn við umferðaröryggi, ekkert frekar en hinir yngri. Tvennt er það þó sem fremur vefst fyrir hinum eldri en þeim yngri í akstri eru gatnamót og sú staðreynd að þeir eru oftar á eldri og óöruggari bílum. Á gatnamótum hættir þeim eldri fremur til þess að yfirsjást bílinn sem kemur á móti þeim. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu dönsku slysarannsóknanefndarinnar.
Hópur eldri ökumanna fer sístækkandi í Danmörku. Af þessum hópi stafar hins vegar engri sérstakri hættu í umferðinni almennt séð því að flestir þeirra eru vel þjálfaðir og ágætir ökumenn. Slysarannsóknanefndin telur þó nauðsynlegt að hafa góða gát á hlutunum því að með hækkandi aldri gerast vissar tegundir slysa algengari og alvarleg og slæm meðsli eru gjarnar fylgifiskur þessara slysa.
Slysarannsóknanefndin hefur rannsakað ítarlega 32 slysatilvik þar sem ökumenn 70 ára og eldri áttu hlut að máli. Í ljós kom að það voru einkum þrennskonar aðstæður í aðdraganda þessara slysa:
• Hinn aldraði missti sjónar á bíl sem kom á móti honum í gatnamótum.
• Hinn aldraði fékk aðsvif eða einhverskonar glöp sem rakin voru til veiklaðs andlegs eða líkamlegs ástands hans.
• Aðstæður sem hinn aldraði átti engan þátt í að sköpuðust og yngri ökumenn hefðu heldur ekki getað forðast eða komið í veg fyrir.
Slysarannsóknanefndin mælir því með að eldri ökumenn (karlar og konur) fylgist betur með og meti eigin heilsu og andlegt og líkamlegt ástand ekki síst áður en sest er undir stýri og ekið er af stað. Ef fólki finnst það vera þreytt og illa upplagt eða hefur vanrækt að fara að fyrirmælum lækna sinna, ætti það að leyfa bílnum að standa eða fá einhvern annan til að aka.
Margir eldri ökumenn hafa slasast alvarlega í árekstrum á gatnamótum vegna þess að þeir sáu ekki bílinn sem á móti kom og óku í veg fyrir hann. Slíkt gerist stundum vegna þess að hinir eldri eiga sumir hverjir erfiðara með að meta hraða og fjarlægð farartækja sem á móti koma. En í skýrslunni kemur líka fram að í sumum tilfellum var bílnum sem á móti kom ekið langt yfir hámarkshraða, sem gerði það enn erfiðara að meta hættuna.