Þjóðlegur fróðleikur!
Starfshópur embættismanna í stjórnarráðinu sem Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra kallaði saman fyrir einum 4 mánuðum til að fjalla um …„möguleg viðbrögð stjórnvalda vegna hækkandi olíuverðs“ skilaði loks af sér skýrslu þann 14. júlí sl. Nefndin leggur til að ekkert verði gert til að létta á ríkisálögum á eldsneytið, nema þá kannski að gefa völdum bændum eftir eitthvað af olíugjaldinu.
Fjármálaráðherra var svosem búinn að komast að þessari niðurstöðu í þingræðu fyrir tæpu hálfu ári – semsé þeirri að hann vildi ekkert gera til að koma til móts við almenning og atvinnulíf í landinu vegna hás eldsneytisverðs: Skipan starfshóps embættismanna undir forystu síns nánasta aðstoðarmanns til að dunda við það í nokkra mánuði að koma saman 32 bls. skýrslu til að vera sammála ráðherranum í einu og öllu, er dállítill stjórnsýslufarsi - þykjustulýðræði.
Þvert á móti virðist það nú ásetningur ráðherrans og ríkisstjórnarinnar að hækka enn álögur á eldsneyti. Miðað við fullyrðingar um lágt eldsneytisverð á Íslandi og lágar ríkisálögur - lægri en í öðrum löndum, bæði í skýrslunni og í fjölmiðlum, þá bendir flest til þess að verið sé að hanna skýringar og atburðarás að því markmiði. Það er athyglisvert í þessu sambandi að hver einasti nefndarmanna kemur úr stjórnarráðinu. Engin ástæða þótti að kalla til fulltrúa neytenda og atvinnugreina eins og ferðaþjónustu og flutninga né annarra.
Í frétt á vef ráðuneytisins er nokkuð gert með það að stærsti þáttur í vinnu nefndarinnar hafi verið að greina þá þróun sem verður á olíuverði til lengri tíma. Það verði áfram hátt og fari hækkandi þótt tímabundnar verðsveiflur geti valdið tímabundinni lækkun. Þetta ásamt upplýsingum um umferð og olíunotkun á Íslandi er ekkert nýtt, heldur almælt tíðindi og þjóðlegur fróðleikur. Útlegging skýrsluhöfunda á honum er hins vegar afar sérstök. Um illbærilega hátt og hækkandi verð á eldsneyti og hugsanleg viðbrögð segir t.d. þetta: „Af þeim sökum leggur nefndin ekki til að ráðist verði í skammtímaaðgerðir eins og t.d. að lækka álögur á olíu.“
Þá er fullyrt í skýrslunni að álögur hins opinbera valdi ekki hærra olíuverði!!
Sé átt við að eldsneytisskattar á Íslandi valdi ekki hærra heimsmarkaðsverði á olíu þá er fullyrðingin vafalítið rétt. En álögurnar valda hærra eldsneytisverði til aðþrengdra íslenskra neytenda. Um það þarf vart að þræta.
Loks er fullyrt í skýrslunni, eins og fjármálaráðherra hefur einnig ítrekað gert, að þær tekjur sem ríkissjóður hefur fengið af vörugjaldi á eldsneyti og eru eyrnamerktar samgönguframkvæmdum séu langt í frá nægar til að standa undir vexti og viðhaldi samgöngukerfisins. Núverandi gjaldkerfi standi því ekki undir samgöngukerfinu.
Þetta er ósvífin ósannindi. Hér er valið að tala um vörugjöld sem eyrnamerkt eru samgönguframkvæmdum, efalitið til að geta snúið út úr gagnrýni. Sannleikskornið í þessu orðavali er að sumir þessara skatta, sérstaklega þeir nýjustu, eru kallaðir öðrum nöfnum eins og til að reyna að sætta fólk við þá í nafni umhverfisverndar og sjálfbærni.
Sannleikurinn er ekki flókinn. Hann er sá að lögð er stöðugt þyngri og þyngri skattbyrði á hreyfanleika fólksins í þessu fámenna en stóra landi.
Á þessu ári innheimtir ríkið 50 milljarða króna af bílum og umferð bíla. Einungis16 milljarðar af þessum 50 fara til vegagerðar og af þessum 16 milljörðum einungis 6 milljarðar til nýframkvæmda í vegakerfinu.