Þjóðvegir seldir hlutafélögum?
Steinþór Jónsson formaður FÍB ítrekaði í fréttum Sjónvarpsins í gærkvöldi andstöðu FÍB gegn fyrirhuguðum vegatollum sem ætlun stjórnvalda hefur verið og er að leggja á umferð um helstu þjóðvegi að og frá höfuðborginni. Steinþór Jónsson sagði aðspurður í fréttinni að skattar á bifreiðar og bifreiðaumferð séu þegar mjög miklir og stórum hluta þeirra varið til annarra hluta en samgöngukerfisins. „Vegatollar eru viðbótarskattar sem eiga ekki rétt á sér,“ sagði Steinþór.
Steinþór ítrekaði einnig áður fram komnar óskir FÍB um að stjórnvöld gerðu grein fyrir því í hvað ætti að nota það fé sem innheimt verður í formi vegatolla og hvort ætlunin væri að nýta það til vegaframkvæmda annarsstaðar á landinu.
Í viðtali við nýjasta tölublað FÍB blaðsins var Ögmundur Jónasson núverandi samgönguráðherra spurður hvort væri verið að víkja af vegi þeirrar gömlu sáttar þjóðar og stjórnvalda að þjóðin sem notar og kostar þjóðvegina eigi þá. Hann vék sér undan því að svara spurningunni.
FÍB telur nauðsynlegt að spyrja þessarar spurningar í því ljósi að alþingi samþykkt snemmsumars lög sem heimila stofnun opinbers hlutafélags um vegaframkvæmdir umhverfis höfuðborgarsvæðið sem muni leggja vegi, fjármagna þá og innheimta síðan veggjöld af þeim. Við sama tækifæri samþykkti alþingi einnig lög um að Vegagerðinni yrði heimilt að taka þátt í að stofna og eiga allt að 51 prósent í hlutafélagi sem boraði veggöng undir Vaðlaheiði og annaðist síðan rekstur og viðhald ganganna. Lög þessi tóku gildi þann 3. júlí sl.