Þjóðverjar herða á lögum um vetrarhjólbarða

http://www.fib.is/myndir/Kedjur.jpg


Þýsk yfirvöld hafa hert á reglum um hjólbarða og á viðurlögum við því að aka á sumarhjólbörðum að vetrinum. Danskir fjölmiðlar hafa af því tilefni minnt landa sína sem hyggja á akstur í Þýskalandi, t.d. til skíðasvæðanna í þýsku Ölpunum og flutningabílstjóra á að skipta yfir á vetrardekk áður en lagt er af stað til að eiga ekki á hættu að fá sektir.

Nýju reglurnar hjá Þjóðverjunum þýða að allir bíla eiga að vera á vetrarhjólbörðum að vetrinum þegar ísingar, snjós eða kraps er að vænta á vegum. Samkvæmt eldri reglum nægði að skipta yfir á vetrarhjólbarða þegar komið var á svæði þar sem vetrarfæri ríkti eða þegar veðuraðstæður kölluðu beinlínis á það.

Þýsk lögregla hefur heimild til að krefjast sektargreiðslu á staðnum og séu dekkin ekki í samræmi við texta nýju reglnanna getur sektin orðið allt að 40 evrur eftir því hversu lögregla metur að sumardekkjaður bíllinn trufli umferðina eða valdi hættu. En verði ökumaður valdur að slysi vegna þess að dekkin voru ómöguleg í vetrarfærðinni þá segja þýsk lög að það megi krefja hann um greiðslu stórs hluta tjónskostnaðarins.
Þýska ríkisstjórnin undirbýr nú mikla áróðursherferð til að kenna  ökumönnum nýju hjólbarðalögin og sérstaklega þó þann hluta þeirra sem kveður á um fyrrnefnda ábyrgð ökumanna ef slys verður.

Forstjóri þess fyrirtækis í Danmörku sem flytur inn Continental hjólbarða minnir á þessa ábyrgð ökumanna á því ef slys verður vegna vanbúnaðar til vetraraksturs á heimasíðu fyrirtækisins. Hann segir að Danir og aðrir sem aka í Þýskalandi að vetrinum verði að gæta að því að vetrardekk eru ekki alltaf nóg. Stundum séu aðstæður þannig að nauðsynlegt kann að verða að setja keðjur eða dekkjasokka á hjólin og því sé nauðsynlegt að vera með slíkan búnað líka í bílnum.