Þjófar með ráð undir rifi hverju
Nýir og nýlegir bílar eiga flestir að vera þjófheldir þannig að ekki á að vera hægt að veiða útvarpsmerkin frá fjarlæsingu þeirra, vista og nota síðan til að opna bílinn þegar eigandinn er horfinn úr augsýn. Ástæðan er sú að útvarpsmerkið breytist í hvert sinn sem ýtt er á opnunar- eða lokunartakkann á fjarlæsingunni. Þótt þjófi takist að fanga merkið og vista það hjá sér, þá opnar það ekki bílinn, eða svo hefur manni verið sagt.
En nú hefur annað sýnt sig. Þjófar með smá kunnáttu í rafeindatækni geta keypt búnað og sett saman tæki sem nær sambandi við þjófnaðarvörn bílsins og getur látið hana hætta að „heyra" merkið frá fjarstýringu bíleigandans. Þar með læsist bíllinn ekki og ef bíleigandi áttar sig og læsir honum aftur gata þjófarnir vistað síðara merkið sem þá dugar til að opna bílinn, hafi þjófunum á annað borð tekist að veiða það og vista þegar eigandinn læsti bílnum í annað sinn. Það efni sem þarf til að setja saman svona bílainnbrotstæki er sannarlega ekki dýrt. Í Svíþjóð kostar það í kring um 6 þúsund ísl. krónur.
Um tveir áratugir eru frá því að fjarstýrðar samlæsingar urðu staðalbúnaður í venjulegum fólksbílum. Fyrstu árin voru útvarpsmerkin alltaf þau sömu. Þjófarnir voru fljótir að átta sig á því að merkin mátt veiða og vista hjá sér og senda síðan á bílinn þegar eigandinn var horfinn á braut. Bíllinn opnaðist þá og þjófar gátu hreinsað úr honum allt fémætt án þess að ummerki eins og brotnar rúður og sprengdir lásar sæjust um innbrotið.
Þennan vanda leystu bílaframleiðendurnir þá með því að smíða kerfi sem breytir útvarpsmerkinu þegar ýtt er á fjarstýringartakkann. Þjófnaðarvörn bílsins les merkið og staðfestir hvort það er rétt og opnar síðan læsinguna. En nú dugar það víst ekki lengur. Þetta þjófatæki sem hér hefur verið lýst virkar í stórum dráttum þannig að þjófarnir fylgjast með fólki sem leggur bílum sínum. Þegar ökumenn stíga út úr þeim nota þjófarnir tækið til að senda út mjög sterkt útvarpsmerki sem yfirgnæfir veikt merkið frá fjarstýringu bíleigandans. Bíllinn læsist þannig ekki þegar hann ýtir á takkann eða þá að hann læsist og opnast strax aftur. Lögregla í Svíþjóð sendi alveg nýlega frá sér viðvörun til fólks um þjófa með svona tæki á stórum bílastæðum við verslanamiðstöðvar og bað fólk að hlusta vel eftir hvort bíllinn læstist eða ekki, eða læstist og opnaðist strax aftur. Best væri að yfirgefa ekki bílinn fyrr en hann væri tryggilega læstur og ganga úr skugga um að svo væri með því að taka í hurðarhún. .
En það er fleira en þjófavarnir bíla sem eru í háska vegna óvandaðs fólks. Bandarískur tölvuöryggisfræðingur, Samy Kamkar að nafni hefur lengi bend á öryggisveikleika í ekki bara bílum heldur einnig í snjallsímum, USB-minnislyklum og fleiri slíkum tækjum. Á öryggisráðstefnu í Las Vegas nýlega fjallaði hann um þessi mál í fyrirlestri og setti um leið saman rafeindatæki eins og hér hefur verið fjallað um, til að brjótast inn í bíla. Hann sagði þar að útvarpsmerki frá fjarstýringum þyrftu að vera tímabundin og eyðast eftir skamma stund. Það myndi þýða að tilgangslaust yrði að veiða þau, vista og geyma til síðari nota. Aðeins einn bílaframleiðandi hefur hannað slíkan búnað í sína bíla. Það er Cadillac.