Þjófkenna viðskiptavini sína
FÍB gerir alvarlegar athugasemdir við þá fullyrðingu samtaka fjármálafyrirtækja að gera megi ráð fyrir að 10-15% af bótagreiðslum frá tryggingafélögunum séu vegna vátryggingasvika. Þessi fullyrðing er ekki byggð á eigin úttekt tryggingafélaganna, heldur er miðað við ”áætlaða tíðni vátryggingasvika í nágrannalöndunum.” Ekki kemur fram hver áætlar þá tíðni, þó flesta renni í grun að það séu tryggingafélögin sjálf. Ekki kemur heldur fram hver þessi nágrannalönd eru.
Samanburður í þessum efnum við lönd með tugmilljónir íbúa er fullkomlega ómarktækur. Samtök fjármálafyrirtækja reyna hins vegar að gefa þessari fullyrðingu trúverðugleika með því að sýna Gallupkönnun þar sem spurt var um viðhorf fólks til vátryggingasvika. Jafnframt vitnaði forstjóri eins félagsins í fréttaviðtali í útvarpi til rúmlega tíu ára gamals tryggingasvikamáls til staðfestingar máli sínu.
Spurt var hvort fólk hafi vitneskju um einhvern sem hafi fengið tryggingabætur sem hann átti ekki rétt á. Um 30% könnuðust við slíkt. En að sjálfsögðu er þar með ekki hægt að draga ályktun um hversu víðtæk tryggingasvik eru. Þarna er verið að spyrja fólk um vitneskju sem spannar alla ævi þess.
Meðalaldur í þessari Gallupkönnun er nálægt 45 ár. Um 30% svarenda vissu um tryggingasvik. Ef sú vitneskja hefur verið fyrir hendi einhvern tímann á síðustu 30 árum í lífi viðkomandi, þá er meðaltals vitneskjan um tryggingasvikin 1-2% á ári. Það styður ekki fullyrðingar um að 10-15% tryggingabóta séu sviknar út árlega.
Fram kemur í könnun samtaka fjármálafyrirtækja að um 1% svarenda í könnuninni telji að vátryggingasvik séu léttvæg. Það styður heldur ekki fullyrðingar um að 10-15% tryggingabóta séu sviknar út.
Tryggingatakar þjófkenndir
Annað verður einnig að hafa í huga. Þegar tryggingafélögin halda því fram að 10-15% tryggingabóta séu sviknar út, þá eru þau að saka 30-40% allra sem fá bætur um að ljúga þær út. Það gefur auga leið að upphæðin dreifist á mun fleiri einstaklinga en hlutfall hennar segir til um.
Með ólíkindum er að samtök fjármálafyrirtækja taki með þessum hætti þátt í að þjófkenna stóran hluta viðskiptavina tryggingafélaganna, en aðallega þó þá sem leita réttar síns vegna tjóna. Könnun Gallup sýnir nefnilega hið gagnstæða, að 95,7% Íslendinga líta tryggingasvik alvarlegum augum. Það er jafnframt með verulegum ólíkindum að fyrirtæki sem á undanförnum árum hafa látið stjórnendur og eigendur sína óátalið fara ránshendi um bótasjóði tryggingafélaganna hafi uppi málflutning af þessu tagi.
Miðað við ályktun samtaka fjármálafyrirtækja virðast ALLIR sem hafa hug á tryggingasvikum komast upp með slíkt – og einnig fjöldi annarra sem ekki hefur hug á tryggingasvikum. Sú niðurstaða heldur ekki vatni.
Í Gallupkönnun samtaka fjármálafyrirtækja kemur fram að 25% svarenda höfðu tilkynnt tjón á síðustu 12 mánuðum. Af þeim hópi höfðu 33% lent í því að tryggingafélagið viðurkenndi bótaskyldu aðeins að hluta, eða hafnaði henni alveg.
Með öðrum orðum, 33% þeirra sem tilkynntu tjón telja sig svikna, vegna þess að þeir fengu tjón sitt ekki bætt í samræmi við væntingar.
Spyrja má hvort tryggingafélögin hafi þannig náð til baka – eða rúmlega það - þeim 3 milljörðum króna sem þau telja sig svikin um árlega.