Þögulir bílar varasamir þeim óvörðu
Bandaríska umferðaröryggisstofnunin NHTSA hefur gert samanburðarrannsókn á umferðarslysum á tvinnbílum og venjulegum bílum. Í ljós kemur að í borgarumferð lenda tvinnbílar í tvöfalt fleiri árekstrum við gangandi og hjólreiðafólk. Rannsóknin var gerð á grundvelli þeirrar kenningar sem segir að tvinnbílunum, sem að hluta ganga fyrir rafmagni og eru því hljóðlausir á stundum, séu gangandi og hjólreiðafólki háskalegri en venjulegir bílar sem vel heyrist í. Skýrsluna er að finna hér sem PDF skjal.
Vissulega eru tvinnbílarnir verulega færri í bandarískri umferð heldur en hefðbundnir bílar og er þetta ítrekað í skýrslunni. En engu að síður höfðu rannsakendur úr að moða 8.387 tvinnbílum á móti 559.703 hefðbundnum bílum. Skýrt er tekið fram að æskilegt hefði verið að hafa haft úr stærri hópi tvinnbíla að moða til að fá pottþéttar niðurstöður.
En engu að síður. Með öllum hugsanlegum fyrirvörum þá virðist sem gangandi og hjólandi umferð um það bll helmingi hættara við að lenda í ákomum við tvinnbíla eins og Toyota og Honda en sambærilega „venjulega“ bíla. Í flokknum venjulegir bílar voru rannsökuð gögn um árekstra eða ákeyrslur á 1.862 hjólreiðamenn og 3.578 ákeyrslur á fótgangandi. Í flokki sambærilegra tvinnbíla fundust samskonar gögn um 77 ákeyrslur á gangandi og 48 á hjólandi fólk.
Á vegum úti þar sem hámarkshraði er yfir 50 km á klst. reyndist hlutfallslegur munur milli tvinn- og venjulegra bíla mjög lítill. En þegar skoðuð voru slys í þéttbýli þar sem hámarkshraði var 50 km á klst eða minni virtist greinilegur munur koma í ljós, tvinnbílunum í óhag. Þetta reyndis ekki síst áberandi þar sem hraðinn var mjög lágur, t.d inni á bílastæðum, þegar verið var að bakka bílum í bílastæði, aka út úr bílastæðum o.fl. Svo virtist sem um það bil helmingi meiri hætta væri á slysum af þessu tagi þegar tvinnbílar væru á ferð, en venjulegir bílar.
Vandinn er augljóslega sá, að svo miklu leyti sem óhætt er að túlka niðurstöður með hliðsjón af því hversu hlutfall tvinnbílanna er lágt í rannsókninni, að hinir gangandi og hjólreiðafólkið heyrir í venjulegum bíl af því að brunahreyfillinn er í gangi og gefur frá sér hljóð. Brunahreyfill tvinnbílsins er hins vegar ekki í gangi og bíllinn hreyfist áfram (og afturábak) fyrir tilstilli hljóðlauss rafmótors. Það túlka hinir gangandi þannig að bíllinn standi kyrr. Hljóðleysið leiðir til misskilnings sem aftur leiðir til óhappa.