Thorium-knúnir bílar
Tæknifyrirtæki sem heitir Laser Power Systems (LPS) í Connecticut í Bandaríkjunum vinnur að nýtingu orku úr efni sem heitir Thorium, m.a. til að knýja rafbíla. Forstjórinn sem heitir Charlie Stevens staðhæfir að einungis átta grömm af Thorium dugi til þess að keyra fólksbíl 1,6 milljón kílómetra sem er miðað við meðalakstur heimilisbíla þýðir það að ein áfylling dugi til notkunar bílsins í eina öld. Hvert gramm þessa efnis innihaldi sem sagt orku á við 28 þúsund lítra af bensíni.
Thorium-Cadillac bíllinn frá 2009. |
Efnið thorium er eitt samanþjappaðasta eða þéttasta efnið sem fyrirfinnst í náttúrunni og því mögulegt að vinna úr því gríðarlega mikinn hita/orku. Hjá Laser Power Systems hafa verið gerðar tilraunir með að leysa þessa miklu bundnu orku efnisins úr læðingi með því að framkalla leysigeisla sem nýttur er til að búa til vatnsgufu sem síðan knýr túrbínuhreyfil. Slík leysigeisla-túrbínuvél er sögð ámóta stór um sig og venjuleg bílvél en heldur léttari, eða um 250 kíló.
Sú hugmynd að nýta thorium sem orkugjafa er ekki glæný: Árið 2009 hannaði maður að nafni Loren Kulesus hjá Cadillac, bílinn World Thorium Fuel Concept Car. LPS vinnur nú að því að þróa thorium orkutæknina áfram og gera hana þannig úr garði að fjöldaframleiðsla á henni og thoriumknúnum bílum verði senn að veruleika.