Þriðji hver keyrir aftur fullur
17.10.2005
Einn af hverjum þremur Svíum sem hlýtur dóm fyrir að aka undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna fellur í sama pyttinn aftur og er gómaður fyrir sama brot. Þetta kom í ljós í nýrri athugun sem leiddi í ljós að þriðjungur þeirra sem hlutu dóma fyrir vímuakstur á síðasta ári hafði áður hlotið dóm fyrir hið sama. Um er að ræða ríflega 4.700 manns. Hans Laurell afbrotafræðingur hjá sænsku vegamálastofnuninni segir við Dagens Nyheter að niðurstaðan sýni að það verði að skoða alvarlega möguleika á öryggisgæslu fyrir þá sem endurtaka slík brot.
Tæpur helmingur þeirra Svía sem ítrekað aka undir áhrifum eru á aldrinum 21-40 ára. Talið er að á hverjum degi séu í umferðinni um það bil 16 þúsund ökumenn með 0,2 prómill áfengis eða meir í blóðinu. Aðeins brot þess fjölda nær lögregla að stöðva. Langflestir þeirra sem lögregla stöðvar og mælir reynast vera með minna en eitt prómill áfengis í blóðinu.
Þegar hins vegar er mælt áfengismagn í blóði ökumanna sem ekið hafa útaf, á önnur ökutæki, fólk eða fasta hluti kemur í ljós að þeir sem á annað borð reynast vera slöttungsfullir með að meðaltali um 1,8 prómill áfengis í blóðinu.