Tímamóta bíll frá Kia fyrir Evrópumarkað afhentur í Reykjanesbæ
Kia hefur framleitt þrjár milljónir bíla í Evrópu og svo skemmtilega vill til að Kia bíll númer 3.000.000 var afhentur hér á landi í gær, nánar tiltekið hjá K. Steinarsson í Reykjanesbæ. Um er að ræða hvítan, 5 dyra Kia ceed í GT Line útfærslu.
Stoltur eigandi þessa tímamótabíls frá Kia heitir Elvar Unndór Sveinsson. Hann fékk bílinn afhentan með viðhöfn í gær og fékk m.a. gjafabréf á Library, HM Monopoly spil, 2 landsliðstreyjur og Kia HM bolta að gjöf frá Bílaumboðinu Öskju.
,,Þetta er sérlega ánægjulegt að bíll númer 3.000.000 sem framleiddur er í Evrópu skuli vera afhentur hér á landi. Við erum afar stolt af því og því góða gengi sem Kia hefur náð hér á landi. Merkið hefur var það næst söluhæsta á Íslandi á síðasta ári og hefur verið í þremur efstu sætunum yfir söluhæstu merkin á síðustu árum," segir Þorgeir Pálsson, sölustjóri Kia hjá Öskju.
Kia framleiðir bíla fyrir Evrópumarkað í hátæknivæddri verksmiðju fyrirtækisins í Zilina í Slóvakíu. Þar hafa allar þrjár milljónir bílanna fyrir Evrópumarkað verið framleiddar frá árinu 2006. Á síðasta ári framleiddi Kia alls 335.600 bíla í verksmiðjunni sem er hæsta framleiðsla sem bílaframleiðandinn hefur náð á einu ári í verskmiðjunni.
Á myndinni má sjá þá Þorgeir Pálsson og Kjartan Steinarsson afhenta Elvari Unndóri Sveinssyni nýjan Kia Ceed GT Line sem er sannkallaður tímamótabíll sem Kia framleiðir fyrir Evrópumarkað.