Þriggja daga Saab-hátíð í Trollhättan
16.06.2005
Þrátt fyrir að Saab bílar séu á förum frá föðurtúnum í Trollhättan í Svíþjóð til Þýskalands þá halda sænskir Saab-dýrkendur hátíð sína í Trollhättan um helgina og verður hún veglegri en nokkru sinni fyrr. Hátíðin hefst á morgun, þann 17. júní og stendur til sunnudagskvölds. Þessar Saab hátíðir eru haldnar annað hvert ár.
Það eru starfsmenn Saab verksmiðjanna, fyrirtækið sjálft og Saab eigendaklúbbarnir í Svíþjóð sem standa sameiginlega að hátíðinni nú sem fyrr. Auk sýninga á gömlum og nýjum Saab bílum, kappaksturs og hópaksturs, fyrirlestra og kennslu af ýmsu tagi verður markaður fyrir nýja og gamla bíla. Þá stendur deild innan Saab sem nefnist SDCC (Þróunarmiðstöð fyrir endurnýtingu bíla) fyrir miklu markaðstorgi með notaða og nýja varahluti í eldri Saab bíla og gamlar rallhetjur sem gerðu garðinn frægan á árum áður verða á staðnum, kallar eins og Erik Carlsson, margfaldur sigurvegari í Monte Carlo rallinu á Saab með tvígengisvél.