Þriggja strokka vélar gegn CO2
Þær fregnir berast nú að þrátt fyrir lagasetningar og tilskipanir sem leiða eiga til minni útblásturs CO2 og annarra loftslagsbreytandi lofttegunda, þá þvert á móti aukist útblásturinn og hlutfall CO2 í andrúmslofti jarðar hafi aldrei verið hærra.
Evrópskir bílaframleiðendur hafa vissulega brugðist við og leggja stöðugt meiri áherslu á að þróa minni og nýtnari brunahreyfla. Einn þessara framleiðenda er PSA í Frakklandi, eða Peugeot-Citroën. Þar er nú unnið að lokafrágangi á nýjum þriggja strokka túrbínubensínhreyfli. Hreyfillinn verður í nýjum Peugeot og Citroënbílum frá marsmánuði á næsta ári.
Þessi nýja bensínvél, sem kallast EB Turbo PureTech Hún er 1,2 l að rúmtaki og aflið er 110-130 hestöfl og hæfir því vel bílum allt upp í efri milliflokk. Vélin verður fyrst fáanleg í Citroën C4 ( útblástur 110 grömm CO2/km) og í Peugeot 308 (107 grömm CO2/km). Síðar kemur hún í m.a. Peugeot 208 (105 grömm CO2/km) og í Citroën C3 og DS3 (105 grömm CO2/km).
En það eru fleiri sem vinna að því að þróa bensínvélina um þessar mundir: Ford, Opel og Renault o.fl. bjóða ýmist nú þegar eða eru að verða tilbúnir með litla þriggja strokka hreyfla. Sem dæmi má nefna Renault sem býður upp á 0,9 l þriggja strokka túrbínumótor í nýjustu kynslóð Renault Clio, Dacia Sandero og fleiri bílagerðum.