Þrjár frumlegar Toyota-hugmyndir
Japönsku bílaframleiðendurnir eru á heimavelli á Tokyo-bílasýningunni sem nú stendur sem hæst. Margir og margskonar frumlegir hugmyndabílar eru þar til sýnis m.a. annars þrír frá Toyota - lítill tveggja sæta sportbíll sem kallast S-FR, vetnisrafbíll sem kallast FCV Plus og loks Kikai, sem er einskonar blendingur bíls og fjórhjóls.
Toyota Kikai. |
Toyota F-CV Plus. |
S-FR sportbíllinn er sá þessara þriggja hugmyndabíla sem er hefðbundnastur. Hann er léttbyggður, tæpra 4 metra langur með vélinni fram í og drifið er á afturhjólum. Hann gæti þannig höfðað vel til þeirra sem hafa gaman að sportlegum akstri. S-FR er hugsaður fyrir yngri kynslóðir fólks sem kaupir sinn fyrsta sportbíl og við hönnun hans er einfaldleiki, góðir aksturseiginleikar og hóflegt verð í fyrirrúmi. Móttökurnar á Tokyosýningunni og fleiri sýningum síðar mun síðan ráða því hvort eða hvenær þessi bíll verði fjöldaframleiddur.
Síðan er það vetnisrafbíllinn FCV Plus. Hann er ekki bara hugsaður sem mengunarlaust farartæki heldur gæti hann líka nýst sem rafstöð fyrir heimili eða sumarbústað eða hvar sem er. Vetnisrafalsamstæðan er staðsett í bílnum fram í því hinu hefðbundna vélarrými. Vetnisgeymarnir eru svo bakvið aftursætið og rafmótorar sem knýja bílinn áfram eru við öll fjögur hjól.
Loks er það Kikai sem er einkonar blendingur bíls og fjórhjóls. Margir þeir hlutar sem bílar eru samsettir úr og eru huldir inni í yfirbyggingunni eru vel sýnilegir í Kikai eins og pústkerfið og eldsneytistankurinn. Meira að segja er lítill gluggi í gólfinu þar sem hægt er að fylgjast með því hvernig hjólabúnaðurinn hreyfist í akstri. Ökumaðurinn situr í miðjunni en farþegarnir tveir til sinnar hvorrar hliðar og aftan við hann.