Þrjár milljónir Mercedes Benz dísilbíla innkallaðir til að draga úr mengun
Um þessar mundir eru tæp tvö ár síðan hið svokakallaða dísilhneyksli hjá Volkswagen var gert opinbert. Volkswagen fyrirtækið setti vísvitandi hugbúnað í dísilbifreiðar sínar til þess að svindla á reglum mengun í útblæstri.
Undanfarið hafa þýsk yfirvöld verið að rannsaka og fara yfir útblástur dísilbíla frá Daimler samstæðunni, sem framleiðir m.a. Mercedes Benz. Í síðustu viku voru stjórnendur Daimler kallaðir fyrir þýska embættismenn í Berlín til að fara yfir grunsemdir um að mögulega hafi verið átt við búnað dísilbíla frá fyrirtækinu.
Þessar grunsemdir hafa ekki verið sannaðar en nú hefur samstæðan ákveðið að uppfæra hugbúnað nýlegra bíla. Eigendum um þriggja milljóna Mercedes Benz bíla í Evrópu verður boðið að koma með bíla sína til þjónustuaðila og láta uppfæra þá með nýjum hugbúnaði til að draga úr losun köfnunarefnisoxíða við bruna í vélum bílanna. Uppfærslan á að hefjast innan fárra vikna og nær til nánast allra dísilknúninna Mercedes Benz bíla með vélar sem uppfylla Euro 5 og Euro 6 staðla Evrópusambandsins um útlosun mengandi efna frá ökutækjum.
Fulltrúar Daimler hafa lýst því yfir að frumkvæðið að þessum aðgerðum komi frá fyrirtækinu óháð aðkomu yfirvalda. Aðgerðin er sögð kosta fyrirtækið 220 milljón evrur eða hátt í 26,9 milljarða íslenskra króna.
Dieter Zetsche, forstjóri Daimler hefur lýst því yfir að fyrirtækið vilji draga úr þeirri óvissu og misskilningi sem almenn umfjöllun um dísilbíla hafi haft í för með sér á liðnum misserum. Fyrirtækið ætlar að grípa til aðgerða og þróa dísilvélina enn frekar til að bæta stöðu dísilbílanotenda og auka tiltrú á dísiltækninni. Dieter segist sannfærður um að dísilvélar séu enn raunhæfur valkostur.
Samkvæmt upplýsingum frá Öskju, umboðsaðila Mercedes Benz á Íslandi, eru ekki fyrirliggjandi upplýsingar um hvort boðið verði upp á hugbúnaðaruppfærslur hér á landi. Komi til þess mun því vera komið á framfæri við viðskiptavini Öskju.