Þrjár Orkur taka höndum saman í orkuskiptunum
Í dag opnaði Orkan tvær afgreiðslustöðvar fyrir vetnisbifreiðar. Önnur stöðin er staðsett að Vesturlandsvegi, Reykjavík, og hin að Fitjum, Reykjanesbæ. Þriðja stöðin verður opnuð um næstu áramót. ON mun framleiða það vetni sem Orkan mun selja, við jarðvarmavirkjun sína á Hellisheiði að því fram kemur í tilkynningu frá Orku náttúrunnar.
Opnun vetnisstöðvanna á Íslandi er þáttur í verkefni á vegum Evrópusambandsins er nefnist H2ME-2. Verkefni er styrkt af Fuel Cells and Hydrogen Joint Undertaking í samræmi við styrktarsamkomulag nr. 700350. Rannsóknar- og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins Horizon 2020, Hydrogen Europe og Hydrogen Europe Research standa jafnframt að verkefninu.
Verkefnið hefur það að markmiði að koma á fót innviðum fyrir rafknúnar vetnisbifreiðar um Evrópu. Þegar má í dag aka slíkri bifreið frá Bergen í Noregi niður til Rómar á Ítalíu. Þá er jafnframt markmið verkefnisins að auka framboð á rafknúnum vetnisbifreiðum og eru ýmsir bílaframleiðendur þátttakendur í verkefninu.
Íslensk nýOrka hefur rutt veginn í orkuskiptum síðustu ár og áratugi, m.a. með aðkomu sinni að verkefnum í tengslum við rafgeymabíla, metanbíla og tengiltvinnbíla. NýOrka átti frumkvæðið og hefur verið ómetanlegur stuðningur við það að koma þeim vetnisstöðvum sem nú verðar opnaðar á laggirnar. Jafnframt á NýOrka heiðurinn af þeim áhuga erlendra bifreiðaframleiðenda, sem óneitanlega hefur kviknað, á Íslandi sem markaði fyrir vetnisknúna rafbíla.
Eins og áður segir grundvallast hið samevrópska verkefni, sem vetnisstöðvarnar byggja á, á sýn Evrópuleiðtoga þess efnis að vetnið sé mikilvæg lausn við nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa.
Þessi sýn er þó ekki takmörkuð við Evrópu, því vetnisstöðvar eru jafnframt í örri uppbyggingu víðs vegar um heiminn. Japanir stefna að því að gera samfélag sitt vetnisknúið og hafa þar tekið höndum saman stjórnvöld og japanskir bílaframleiðendur, svo sem Toyota, Honda og Nissan.
Kaliforníuríki í Bandaríkjunum hefur ávallt verið leiðandi þegar kemur að náttúruvernd en þar má nú þegar finna 35 vetnisstöðvar og aðrar 20 í byggingu. Þá hefur Kórea einnig áform um að reisa hundruðir vetnisstöðva fyrir árið 2030, auk þess sem nú þegar má finna vetnisstöðvar t.d. í Kína, Ástralíu, Sameinuðu Arabísku furstadæmunum, á Indlandi og í Brasilíu, svo nokkur lönd séu nefnd.
Á myndinni takast þeir í hendur Bjarni Már Júlíusson, framkvæmdastjóri Orka náttúrunnar, og Úlfar Steindórsson forstjóri Toyota.