Þrjú sölumet Mazda í september
Mazda 2.
Bílaiðnaður heimsins líður fyrir fjármálakreppu og hátt eldsneytisverð um þessar mundir og samdráttur er hjá flestum helstu bílaframleiðslufyrirtækjunum. En hjá Mazda er engin kreppa og nýliðinn septembermánuður er söluhæsti mánuðurinn í sögu Mazda í Evrópu.
Mazda stóð mjög illa fyrir aðeins um áratug, en menn spýttu í lófana, endurskipulögðu fyrirtækið og sölukerfið og þróuðu nýjar gerðir sem hlotið hafa mjög góðar viðtökur. Meðal þeirra má nefna smábílinn Mazda 2, Mazda 6 og nýr Mazda 3 er væntanlegur snemma á næsta ári.
Mazdabílar hafa alla tíð verið mjög traustir og vel samansettir bílar með afar lága bilanatíðni. Síðustu árin hefur svo sérstæð hönnun bæst við og eru Mazdabílar auðþekktir og skera sig úr fyrir sérstætt og velheppnað útlit. Í september seldust samtals 33.500 Mazdabílar í Evrópu. Það er 5 prósentum meira en á sama tíma í fyrra og hæsta mánaðarlega sölutala í sögu Mazda.
Á fyrra helmingi ársins seldust alls 180.500 Mazdabílar í Evrópu. Það er 17 prósentum meira en á sama tíma í fyrra. Á fyrstu níu mánuðum ársins seldust 279.600 Mözdur. Það er 18 prósentum meira en fyrstu níu mánuði síðasta árs.
Mazda gengur sérstaklega vel í Bretlandi og í september náði Mazda hæstu markaðshlutdeild sinni þar nokkru sinni – 2,4 prósentum. Eftirspurn eftir Mazda jókst þó mest í Rússlandi. Í september seldust þar 7.600 bílar sem er 73 prósentum meira en í sama mánuði í fyrra.