Þrotabú Saab selt
Baráttan um þrotabú Saab í Svíþjóð er lokið. Bústjóri hefur tekið tilboði kínversk-sænsk-japönsku samsteypunnar NEVS (National Electric Vehicle Sweden). Dagblaðið Dagens Industri segir að tilboðið hljóði upp á 1,8 milljarða sænskra króna. Lokabaráttan stóð milli NEVS og kínverska félagsins Youngman sem fullu nafni heitir Zhejiang Youngman Lotus Automobile.
NEVS er ekki gamalt félag – stofnað í Kína í maímánuði sl. í þeim eina tilgangi að kaupa þrotabú Saab. 51% hlutafjár í NEVS er í eigu eins manns, hins kínversk-sænska viðskiptamanns Kai Johan Jiang. Afgangurinn er í eigu japanska fjárfestingafélagsins Sun Investment. Kai Johan Jiang er 47 ára gamall. Hann hefur áður starfað sem sérlegur ráðgjafi fyrrverandi forstjóra Volvo vörubíla (Volvo Lastvagnar) en sá er nú stjórnarformaður NEVS.
Kai Johan Jiang er lýst sem viðkunnalegum hugsjóna- og athafnamanni, fluggreindum og fljótum að greina aðalatriði frá aukaatriðum. Árið 2002 er hann sagður hafa fengið ákafan áhuga á umhverfisvernd og umhverfismildum sjálfbærum samgöngum og iðnaði. Árið 2004 stofnaði hann kínverska orkufyrirtækið Dragon Power til að framleiða orku á sjálfbæran hátt. Fyrirtækið heitir í dag State Power Group og fæst við orkuframleiðslu og –dreifingu. Það fæst m.a. við rafmagnsframleiðslu frá vindmyllum og gas- og etanólframleiðslu úr lífmasssa. Sú starfsemi fer fram bæði í Kína en einnig í Svíþjóð.