Þrýstiloft til að auka afl og spara bensín
Sænskur vísindamaður við Tækniháskólann í Lundi, LTH, hefur komist að því að hægt sé að minnka eldsneytiseyðslu bíla um helming með því að hleypa þrýstilofti í brunahólf vélanna við ræsingu, í lausagangi og við hröðun. Þrýstiloftið auki mjög aflið við hröðun, létti ræsingu og lausagang. Þrýstiloftið er sagt virka jafnvel á bensín sem dísilvélar.
Vísindamaðurinn sem heitir Per Tunestål (sjá mynd) hefur smíðað og prófað þrýstiloftsbúnað sem nýtir hemlunarorku bíla til að þjappa saman lofti í lítinn þrýstikút í bílnum. Því er síðan veitt til vélarinnar þegar hún er ræst, þegar tekið er af stað og gefið er í og sömuleiðis þegar hún er í lausagangi. Þær tilraunir sem búið er að gera á búnaðinum og tækninni benda til þess að hægt sé að spara alt að 60% eldsneyti með búnaðinum í t.d. strætisvögnum í borgarumferð.
Endurnýting hemlunarorkunnar er velþekkt í raf- og tvinnbílum. Þar er henni breytt í rafmagn sem skilar sér í rafgeymana. Að nýta orkuna til að þjappa saman lofti er hins vegar nýjung. Hér á vef FÍB höfum við áður sagt frá tilraunum í Frakklandi með bíla sem ganga algerlega fyrir þrýstilofti en loft/bensín tvíorkubílar er áður óþekkt fyrirbæri. Per Tunestål, segir við Aftonbladet í Svíþjóð að sjálf tæknin sé bæði ódýr og einföld og fyllilega raunhæf. Auðvelt sé að koma búnaðinum fyrir í bílum á framleiðslustigi. Hann segir að þegar sé indverskur bílaframleiðandi búinn að setja sig í samband við hann sem vilji hefja framleiðslu á loft-tvinnbílum.