Þungir skattar á bifreiðaeigendur ræddir á alþingi
„Bifreiðaeigendur greiða mikla skatta hér á Íslandi. Það er alveg óumdeilt. Áætlaðar skatttekjur ríkissjóðs af ökutækjum og eldsneyti hefur verið um 37 milljarðar undanfarin ár,“ sagði Sigríður Á. Andersen alþingismaður á alþingi sl. fimmtudag.
Sigríður var málshefjandi umræðu um þunga skattbyrði sem lögð er á íslenska bifreiðaeigendur og hversu skattarnir eru margir og mismunandi eftir bifreiða- og eldsneytistegundum. Á bensín og dísilolíu leggjast sex mismunandi skattar og gjöld sem eru almenn vörugjöld, sérstakt vörugjald, kolefnisgjald, flutningsjöfnunargjald og virðisaukaskattur.
Þegar nýr bíll eru keyptur bætist vörugjald við verð hans hingað kominn. Gjaldið fer eftir því hversu mikil kolefnislosun hans er í notkun og nemur frá 0-65% Þar ofan á er svo lagður virðisaukaskattur. Eftir það eru greiddir árlegir notkunarskattar eins og bifreiðagjöld o.fl, sem leggjast mjög mis þunglega á bíla eftir tegundum og gerðum. Vörugjöld á nýjar bifreiðar skiptast í níu flokka og miðast við koltvísýringsútblástur. Hæst geta þau numið 65% af verði bílsins hingað komnum. og ofan á það leggst síðan 24% virðisaukaskattur.
Ýmsum framannefndra skatta var breytt á síðasta kjörtímabili í nafni umhverfisins. „Þá var t.d. skattur á bensín hækkaður langt umfram dísil með því að miða bifreiðagjöld og vörugjöld nær eingöngu við skráðan koltvísýringsútblástur og einnig voru vörugjöldin hækkuð, sérstaklega á bensínbíla. Það er hins vegar erfitt að greina með óyggjandi hætti magn CO2 í útblæstri bifreiða og þar með að ákvarða vörugjaldið. Við þekkjum það af fréttum af fölskum tölum bílframleiðenda erlendis að það getur verið erfitt,“ sagði Sigríður. Hún gagnrýndi að íslenskum almenningi hafi með þessum hætti markvisst verið stýrt til kaupa dísilbíla fremur en bensínbíla. Dísilbílar væru dýrari í innkaupum og þeir valdi líka heilsuspillandi mengun. Vafasamt sé því að stýra bílakaupum almennings með lægstu gjöldum á bíla með skaðlegustu mengunina út frá lýðheilsusjónarmiði.
Sigríður vakti ennfremur athygli á því að á síðasta kjörtímabili hefði líka tekin sú ákvörðun að veita skattaívilnun fyrir innflutning á lífeldsneyti, þ.e. etanóli og jurtaolíu, ... „hreinlega matvælum, til íblöndunar í bensín og dísil þegar jafnvel lágu fyrir þá þegar engin sérstaklega jákvæð umhverfisáhrif af slíkri íblöndun. Miðað við þær upplýsingar sem ég hef aflað mér sýnist mér við núna vera að brenna í bílunum okkar mat sem gæti nært 100.000 manns á ári, ef við setjum það í samhengi við eitthvað sem við ættum líka að hafa áhyggjur af, sem er möguleg hungursneyð í heiminum.
Hvað veldur þessari aðför að bíleigendum og heimilunum í landinu? Er þessi mismunandi skattlagning réttlætanleg? Getur hæstv. fjármálaráðherra verið sammála mér um að einfalda þurfi alla þessa gjaldtöku, draga úr neyslustýringu, ekki síst þegar núverandi neyslustýring ýtir mönnum til kaupa á dýrari og meira mengandi bílum og stuðlar að innflutningi á dýrara eldsneyti?“
Ég teldi réttast að sameina alla vörugjaldsflokkana í eitt vörugjald til einföldunar og til að draga úr óæskilegri neyslustýringu. Þar með væru menn lausir við viðmið á borð við þyngd og vélarstærð og óvissar stærðir eins og koltvísýringsútblásturinn og þurfa ekki að reiða sig á tölur erlendra framleiðenda við ákvörðun skatta.“