Þýskt sólarorkufyrirtæki vill kaupa einn þekktasta bílaframleiðanda Evrópu

http://www.fib.is/myndir/Solarsellubill.jpg

SolarWorld hefur staðið að tilraunum og prófunum á sólarknúnum bílum. Hér er einn þeirra.

Gengi Opel í Þýskalandi hefur verið upp og niður í gegnum tíðina. Í rúmlega áratug á síðustu öld og fram á þessa voru margar bílgerðir Opel hrjáðar kvillum en eftir mikið gæðaátak eru Opel bílar nú meðal þeirra sem minnst bila og Opel bílar hafa undanfarin ár verið meðal þeirra söluhæstu í Evrópu. En enda þótt ágætlega hafi gengið í seinni tíð þá gengur efnahagskreppan í Evrópu mjög nærri Opel, ekki síst vegna þess hversu móðurfélagið GM í Detroit stendur illa. Opel hefur því beðið alríkisstjórnina í Berlín um fjárhagsaðstoð í vanda sínum.

En fyrr í vikunni barst GM kauptilboð í Opel. Tilboðið er frá fyrirtæki sem heitir SolarWorld í Bonn Í Þýskalandi. SolarWorld sérhæfir sig í að framleiða sólarrafhlöður og sjálfbær orkukerfi með sólarrafhlöðum og vindmyllum fyrir hús og híbýli. Það setti nýlega upp slíkt kerfi fyrir bústað páfa í Vatikaninu í Róm. Með kaupum á Opel hyggst fyrirtækið hella sér út í framleiðslu á umhverfismildum bílum eða „grænum“ bílum eins og þeir kallast.

Kauptilboðið nær til höfuðstöðva, þróunarmiðstöðvar og aðalverksmiðju Opel í Russelsheim, skammt frá Frankfurt og þriggja annarra Opelverksmiðja í Þýskalandi. Fyrir Opel vill SolarWorld greiða 250 milljónir evra í peningum og með bankalánalínum upp á 750 milljónir evra sem alríkisstjórnin í Berlín ábyrgist.

Í frétt á heimasíðu SolarWorld AG segir að ætlunin sé að þróa áfram þær gerðir sem Opel framleiðir nú þegar í þá átt að gera þær umhverfismildar. Þá verði nýjar kynslóðir umhverfismildra og ofursparneytinna lágmengunarbíla hannaðar og byggðar og þannig haldið áfram þeirri vinnu sem hönnunarmiðstöðin í Russelsheim er þegar byrjuð á. Í því sambandi er vísað til bíla í sama anda og Volt raf-/tvinnbílsins sem á að koma á markað árið 2010.

Fyrir um tveimur árum gerði SolarWorld AG samskonar tilboð í bandarískt sólarorkufyrirtæki í eigu Shell olíufélagsins. Tilboðinu var tekið og síðan þá hefur taprekstri þess fyrirtækis verið snúið í hagnað.