Tiguan skal hann heita

http://www.fib.is/myndir/VW-A-2.jpg
Nýi jepplingurinn frá Volkswagen sem myndaður var með mikilli leynd hér á landi sl. vetur og sýndur sem hugmyndarbíll á bílasýningunni í Genf skömmu síðar hefur fengið nafn eða gerðarheiti. Heitið er Tiguan og var nafnið valið eftir að skoðanakönnun hafði farið fram meðal 350 þúsund bílaáhugamanna í Evrópu. Önnur nöfn sem til greina komu voru Nanuk, Namib, Rockton og Samun.

Tiguan er hugsaður sem einskonar litli bróðir VW Touareg. Hann er byggður á grunnplötu VW Golf og er með sítengdu fjórhjóladrifi. Tiguan verður svipaður að stærð og Toyota RAV-4 og aðrir sambærilegir jepplingar, enda er hugmynd ráðamanna Volkswagen að tefla honum fram á markaði gegn þeim.
http://www.fib.is/myndir/VW-A-6.jpg
Tiguan var sýndur í Genf undir vinnuheitinu Concept A. Hann vakti þar mikla athygli og fékk góðar móttökur bæði blaðamanna og almennra sýningargesta. Sýningarbílarnir þar voru með fjórum hurðum á hliðum og opnuðust þær aftari á lömum að aftanverðu. Slíkar afturhurðir voru algengar á bílum fram á sjötta áratug síðustu aldar og kallast meðal bílamanna sjálfsmorðsdyr (Sucide-door). Samkvæmt frétt Der Spiegel er ekki talið líklegt að slíkar dyr verði á fjöldaframleiddum Tiguan jepplingum þegar þeir koma á markað 2008, heldur hefðbundnar með lömum á framanverðum afturhurðunum.