Til hólmgöngu við umferðardauðann
Jean Todt forseti FIA og sérlegur sendimaður aðalritara SÞ og Christian Friis Bach framkvæmdastjóri UNCE skora á ríkisstjórnir, almenning og bílaframleiðendur heimsins að styðja og framfylgja stefnu Sameinuðu þjóðanna í umferðaröryggismálum. Áskorunin kom fram á blaðamannafundi FIA og Efnahags- og framfarastofnunar SÞ: UNECE í Genf í lok sl. viku.
Á hverju ári deyja 1.25 milljón manneskjur í heiminum í umferðarslysum og 20-50 milljónir slasast. Umferðarslys eru megin dánarorsök meðal ungs fólks á aldrinum 15-29 ára og þau enda líf um 500 saklausra barna hvern einasta dag. Um 90% umferðarslysanna eiga sér stað lág- og miðlungstekjuríkjunum þrátt fyrir það að þar eru aðeins um 45 prósent af vélknúnum farartækjum heimsins á ferðinni. Viðkvæmu vegfarendurnir (fótgangandi, reiðhjóla- og vélhjólanotendur og farþegar þeirra) eru í mestri lífshættu og eru um 50 prósent þeirra sem láta lífið. Hlutfall látinna í umferðarslysum er hæst í Afríku; 26,6 látnir á hverja 100.000 íbúa. (Í Evrópu er þetta hlutfall 9,3 á hverja 100.000 íbúa). 43 prósent þeirra sem látast í umferðarslysum í heiminum eru Afríkubúar.
Til að nýjustu markmið alþjóðasamfélagsins um sjálfbæra þróun geti náðst, verður það að takast að fækka dauðaslysunum í umferðinni um helming fyrir 2020. Fækkun umferðarslysa er einfaldlega forsendan. Til þess þarf sameiginlegt og samstillt átak og samstillta krafta allra sem hlut eiga að máli, ríkisstjórna, ríkisvalds, almennings og atvinnuvega.
Til að árangur náist þarf að takast á við vandann á mörgum vígstöðvum, eins og FIA og bifreiðaeigendafélögin og Sameinuðu þjóðirnar hafa bent á og stuðlað að undanfarin ár. Fækkun slysa kallar á að almenningur og stjórnvöld séu meðvituð, góð lög og reglur um umferð og ökutæki séu til staðar og þeim sé framfylgt, vegir og samgönguleiðir séu sem öruggust og sömuleiðis bílar og önnur farartæki og að þær þjóðir sem bestum árangri hafi náð í því að fækka slysum, miðli öðrum af reynslu sinni og aðstoði þær.
Í sameiginlegri yfirlýsingu Jean Todt og Christian Friis Bach segir m.a: „Við hvetjum öll ríki Sameinuðu þjóðanna að gangast við ábyrgð sinni og vinna gegn slysunum í samræmi við ályktanir SÞ með öllum þeim lagalegu ráðum sem tiltæk eru. Við hvetjum einnig bílaiðnaðinn í heild til þess að þau farartæki sem sem hann framleiðir fyrir þróunarríkin séu jafn vel búin öryggisbúnaði og þau sem boðið er upp á í iðríkjunum. Allir þeir sem bera umferðaröryggið fyrir brjósti verða að vinna sameiginlega að því að ná markmiði alþjóðasamfélagsins um áratug aðgerða gegn umferðarslysum. Átakið snýst um það að spara milljón mannslíf fyrir árið 2020.“