Tilboðsfrestur í Jaguar og Land Rover lengdur
20.09.2007
Ford hefur lengt þann tíma sem hugsanlegir kaupendur að Jaguar og Land Rover höfðu áður fengið til að gera tilboð í merkin tvö. Upphaflegur tilboðsfrestur var fram í endaðan september en nú hefur verið tilkynnt um að hann framlengist um tvær vikur, eða fram í miðjan október. Ef það gengur eftir ætti að liggja fyrir í byrjun nóvember hver það verður sem fóstrar Jaguar og Land Rover í framtíðinni.
Tímaritið Auto Motor & Sport hefur eftir heimildum innan Ford samsteypunnar að sex aðilar hafi boðið í Jaguar og Land Rover og hafi þeir óskað eftir framlengingu frestsins til að ganga frá hugsanlegri fjármögnun á kaupunum. Sömu heimildir herma að meðal þeirra sem vilji kaupa hin sögufrægu bílamerki séu tvær indverskar bílaverksmiðjur. Þau séu Tata og Mahindra. Óstaðfestar fréttir í Indlandi herma þó að Mahindra hafi dregið tilboð sitt til baka.
Sterkur orðrómur hefur verið um að Ford muni einnig fjárhagsstöðu sinnar vegna verða að selja Volvo enda þótt Volvo skili ágætum hagnaði. Auto Motor & Sport segir að stjórn Ford hafi ekki tekið ákvörðun um þá sölu, en hún muni að öllum líkindum liggja fyrir í árslok eða byrjun næsta árs.
Margir Svíar hafa mikinn áhuga á að Volvo verði á ný á höndum sænskra aðila og hafa hvatt mjög til þess að hið sænska Volvo AB, sem á sínum tíma seldi fólksbílaframleiðslu Volvo til Ford, kaupi hana til baka. Stjórnendur Volvo hafa ekkert gefið upp um vilja sinn í þeim efnum fyrr en nú þegar forstjórinn, Leif Johansson segir í viðtali við Bloomberg fréttavefinn að það sé hreint ekki á dagskrá að kaupa Volvo fólksbílaframleiðsluna til baka.