Tilfinningarík minningarstund
Fórnarlamba umferðarslysa á Íslandi var minnst á alþjóðlegum minningardegi við bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi í gær. Þetta var í sjöunda sinn sem minningardagurinn er haldinn hér á landi en hliðstæð athöfn fór fram víða um heim. Sameinuðu þjóðirnar hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember þessari minningu.
Segja má að allir upplifi með einum eða öðrum hætti afleiðingar umferðarslysa. Vart er til sá einstaklingur sem þekkir ekki einhvern sem lent hefur í alvarlegu slysi í umferðinni. Um það bil 4.000 einstaklingar láta lífið og hundruð þúsunda slasast í umferðinni í heiminum á degi hverjum. Enn fleiri takast á við áföll, sorgir og eftirsjá af þessum völdum.
Steinþór Jónsson, formaður Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, sagði að það hefði verið tilfinningaríkt ávarpið sem Þóranna Sigurbergsdóttir flutti á minningarstundinni í Fossvogi og það hefði snert sig mjög. Hún missti son sinn í umferðarslysi á Reykjanesbrautinni árið 1996 fyrir 22 árum síðan en hann hefði orðið fertugur þennan dag, 18. nóvember, í gær.
,,Maður var hugsi til þess á stund sem þessari hvað allt of margir hafa staðið í þessum sporum. Þetta sýnir hvað það er mikilvægt að vera partur af þessu flotta teymi sem er að reyna með öllum ráðum að fækka þessum sorgartilfellum. Í kjölfar fjölda slysa á sínum tíma á Reykjanesbrautinni stóð hópur fólks upp og krafðist þess að ráðist yrði í framkvæmdir til að fækka slysum. Þær náðu árangri 2004 þegar ákveðinn kaflinn var tvöfaldaður og síðan þá hefur engin látist á þessum kafla. Þar á undan voru 5-6 einstaklingar að láta þar lífið af slysförum á hverju ári. Ég ætla að vona að stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur og ljúki tvöföldun það sem á vantar eins fljótt og verða á. Það skiptir okkur öll miklu máli,“ sagði Steinþór Jónsson formaður FÍB.