Tilgangslaust að tvöfalda eldsneytisverðið
Vegamálastjóri Noregs, Terje Moe Gustavsen, lagði það til í síðustu viku við norsk stjórnvöld og norsku þjóðina að eldsneytisverð í Noregi, sem er með því hæsta á byggðu bóli, yrði tvöfaldað frá því sem það er nú. Þetta vill vill vegamálastjórinn gera til þess að Noregur nái markmiðum um minni losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið.
Óvíða eru bílar og rekstur bíla skattlagður meira en í Noregi. Auk eldsneytisskatta og skatta á sjálfa bílana eru mjög víða í ofanálag rukkað sérstaklega fyrir að aka um tiltekna vegi og í höfuðborginni og öðrum þéttbýlisstöðum eru ofurhá stöðugjöld lögð á bíla sem lagt er í stæði. Það er þannig opinber stefna að gera fólki á einkabílnum verulega erfitt fyrir í þeim tilgangi að fá það til að nota almannasamgöngur í stað einkabílsins. Nú vill vegamálastjórinn bæta um betur með stórfelldri hækkun eldsneytisskatta þannig að eldsneytisverðið hækki um helming.
Umhverfissamtök sem nefnast Bellona eru þó ekki sammála þessari hugmynd. Varaformaður samtakanna segir að svona róttæk breyting á eldsneytissköttum sé ekki nauðsynleg vegna þess að hún nái ekki tilgangi sínum. Ekki sé mögulegt að draga svona mikið úr útloftun gróðurhúsalofts með stórminnkaðri bílanotkun og auknum almannasamgöngum. Fleira þurfi að koma til. Hins vegar megi almenningur fastlega gera ráð fyrir því að eldsneytisverð fari hækkandi en það mun gerast án þess að ríkið grípi sérstaklega inn í málin.
Í stað þess að ríkisvaldið sé að viðra svona óraunhæfar hugmyndir sé því nær að styðja við bakið á tæknilegum lausnum sem leiða til mengunarlausrar umferðar. Stokka þurfi upp hlutina og skapa nýtt umhverfi laga og reglna sem ívilna mengunarlausri orku . „Við þurfum ekki á því að halda að leggja dreifðar byggðir Noregs í auðn með því að þykjast ætla að leysa loftslagsvanda heimsins,“ segir varaformaður Bellona.