Tillaga verkefnahóps að innheimta mengunar- og tafagjöld í borginni
Upp á síðkastið hefur verið töluverð umræða um viðbótarskattheimtu með vegtollum. Þessi umræða ætlar í raun engan enda að taka en nú vilja sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu fá leyfi til að innheimta mengunar- og tafagjöld í borginni. Þetta er meðal þess sem kemur fram í tillögum verkefnahóps um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu á svæðinu sem kynnt hefur verið.
Borgarstjóri hefur látið uppi að eftir sé að finna út hvernig þessi nýi skattur verði innheimtur en erlendis sé þetta rafrænt en ekki í formi gjaldhliða. Borgarstjóri segir í þessu vera breið samstaða ríkis og sveitarfélaga um að ráðast í verkefnin á Höfuðborgarsvæðinu en ekki sé búið að slá neinu föstu um útfærslu. Verkefnahópurinn lagði í raun til breytingartillögu við samgönguáætlun og tekur umhverfis- og samgönguáætlun Alþingis nú við henni. Samgönguráðherra hyggst ræða tillögurnar í nefndinni í næstu viku.
Í allri þessari umræðu væri hins vegar ekki nær að nota þá fjármuni sem rafrænu kerfin kosta til að draga úr þrengslum og töppum fyrir umferð í borginni. Það hefur verið markvisst átak á liðnum árum að þrengja umferð bíla í borginni. Borgin hefur sett sig upp á móti mislægðum gatnamótum, þrengt að umferð víða og látið hanna ný gatnamót sem anna umferðinni verr en fyrri lausnir. Í þessu sambandi má nefna ný gatnamót sem tengja Lækjargötu, Kalkofnsveg og Geirsgötu eða HM-gatnamótin.
Ökumenn á höfuðborgarsvæðinu þekkja umferðarteppur sem myndast á morgnana og svo aftur síðdegis að afloknum vinnudegi. Þetta ástand hefur varað lengi án þess að gripið hefur verið úrlausna með einhverjum hætti. Það er eins og yfirvöld standi ráðþrota gegn þessum vanda en á sama tíma koma tillögur fram í sviðsljósið um að innheimta mengunar- og tafagjöld. Hvað næst kunna margir að spyrja. Hugmynd þessi er galin og í raun enn ein leiðin til auka bílaskatta
Vegatollainnheimta af ölu tagi er dýr og óskilvirk fjáröflunarleið. Þetta hefur sýnt sig í nágrannalöndunum sem við berum okkur oft saman við. Sett hafa verið upp rafræn og sjálfvirk gjaldhlið á leiðirnar inn í miðborg Stokkhólms í Svíþjóð með ærnum tilkostnaði en þegar upp var staðið kostaði framkvæmdin um 25 milljarða íslenskar krónur.
Samskonar kerfi yrði ekki ódýrara í framkvæmd umhverfis Reykjavíkur. Heildarskattheimta af bílum er nú þegar mikil og ef tillögur verkefnahópsins um mengunar- og tafagjöld ná fram að ganga er ljóst að skattheimtu af bílum er hvergi nærri lokið.
FÍB hefur ítrekað mótmælt hugmyndum um nýja bílaskatta í formi vegtolla á liðnum árum. FÍB hefur margsinnis bent á að þjóðvegakerfi landsins sé í mjög slæmu ástandi eftir áratugalangan viðhaldsskort. Það er ólíðandi að ráðamenn gangi á bak orða sinna og leggi til stóraukna skattheimtu til þess eins að mæta því að verja svipuðu hlutfalli þjóðartekna til vegabóta líkt og var á árunum fyrir hrun.