Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, segist fagna áformum fjármálaráðherra um kílómetragjald rafmagns- og vetnisbíla en að þau hefðu mátt vera betur útfærð. Þá segist hann hafa áhyggjur af því að gjaldið gæti komið niður á áhuga landsmanna á rafmagnsbílum. Þetta kom fram í viðtali við Runólf á vísi.is
Í áætlunum sem kynntar voru á vef Stjórnarráðsins er miðað við að kílómetragjald verði 6 kr. á næsta ári fyrir rafmagns- og vetnisbíla. Tengiltvinnbílar munu hins vegar greiða 2 kr. kílómetragjald á næsta ári, sem er þriðjungur á við rafmagnsbíla, þar sem þeir nota bæði rafmagn og jarðefnaeldsneyti og greiða áfram tilheyrandi gjöld fyrir notkun hins síðarnefnda.
Í tilkynningunni kemur fram að árangur í orkuskiptum kallar á að fjármögnun vegasamgangna verði óháð jarðefnaeldsneyti. Stefnt er að innleiðingu nýs, einfaldara og sanngjarnara kerfis á næstu árum, þar sem greitt er almennt kílómetragjald í stað sértækra gjalda á bensín og olíu sem nú eru í gildi. Þannig verður kerfið sjálfbærara og styður við áframhaldandi uppbyggingu og viðhald vegakerfisins samhliða orkuskiptum til framtíðar.
Kílómetragjaldið hefði mátt vera betur útfært
„Ég fagna reyndar þessum áherslubreytingum stjórnvalda varðandi skattlagningu á ökutæki og FÍB lagði fram núna fyrr á árinu tillögur um kílómetragjald þannig að þetta er kannski angi af þessari hugmyndafræði, sem er jákvætt í sjálfu sér,“ segir Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB um gjaldið fyrirhugaða, en segir félagið hafa viljað sjá málið betur útfært,“ segir Runólfur í samtalinu á visi.is
Til að mynda ræði um eitt fast gjald á alla rafknúna fólksbíla óháð þyngd og orkunotkun. Að auki sé gjaldið óeðlilega hátt í sumum tilvikum. „Og í einhverjum tilvikum er þetta hærra heldur en svokölluð notkunargjöld væru í gegnum eldsneyti af brunahreyfilsbílum,“ segir Runólfur.
„En þetta er auðvitað núna bara áfangi og það getur kannski tekið einhverjum breytingum í meðferðum þingsins,“ segir Runólfur, sem segir félagið ekki deila á þá hugmyndafræði að raf- og tengiltvinnbílar taki þátt í kostnaði við slit á vegakerfinu.“
Áformin þó jákvætt fyrsta skref
„Við teljum allavega að þessi hugmyndafræði, að fara yfir þessa kílómetrainnheimtu, sé jákvætt. Við fögnum því. Þá þarf bara útfærslan að koma betur fram en þetta er eitthvað sem, til framtíðar, mun væntanlega verða það skattaform sem við munum sjá varðandi skattlagningu á ökutækjaumferð. “
Runólfur segist hafa áhyggjur af því að gjaldið komi til með að draga óeðlilega mikið út hvatanum til orkuskipta. Að það gæti komið niður á áhuga landsmanna á orkubílum.
Aðspurður hvort hann spái því að landsmenn muni leggja að jöfnu bíla sem drifnir eru áfram af raforku annars vegar og jarðefnaeldsneyti hins vegar segir Runólfur fólk nú þegar farið að reikna út hvort það borgi sig að skipa út rafbílnum. Sér í lagi fólk sem þurfi að aka langan veg daglega. Þá yrði næsti kostur neyslugrannur dísilbíll.