Tíma- og mannfrek bílaframleiðsla
Um það bil 28 tíma tekur að framleiða hvern bíl í verksmiðjum Hyundai í S. Kóreu. Það er tvöfalt lengri tími en framleiðslan tekur hjá Hyundai í Bandaríkjunum þar sem starfsmenn eru þó verulega færri við hvert samsetningarfæriband. Laun hvers starfsmanns í Kóreu eru í ofanálag um 16 prósent hærri en hvers bandarísks starfsmanns og þrefalt hærri en hvers bílaverksmiðjustarfsmanns í Kína.
Hyundai, sem er fimmti stærsti bílaframleiðandi heims, rekur sjö samsetningarverksmiðjur í heimalandinu S. Kóreu. Þær eru flestar orðnar gamlar og sú elsta er 45 ára og nánast úrelt orðin og mjög dýr í rekstri. Það er því talið vera gott ráð til að tryggja það að hagnaður vaxi áfram að loka gömlum verksmiðjum og jafnvel flytja framleiðsluna úr landi. En það er hægara sagt en gert. Hið herskáa verkalýðsfélag starfsmanna Hyundai sem í eru um 46 þúsund manns, aftekur það með öllu og undir það tekur reyndar stjórn Hyundai sem segir að Kórea sé heimalandið og heimamarkaðurinn sá mikilvægasti. Þar seljast nefnilega fleiri lúxusbílar Hyundai en nokkurs staðar annarsstaðar í heiminum.
En þrátt fyrir lengri framleiðslutíma í verksmiðjunum í Kóreu og hærri launakostnað þá eru allir innviðir í S. Kóreu mjög hagfelldir Hyundai. Flutningaleiðir að og frá höfuðaðsetri Hyundai í Ulsan eru góðar og öruggar og tengja vel saman bílaverksmiðjurnar þar og undirframleiðendur og innflytjendur íhluta í bílana. Íhlutaframleiðendurnir eru um 380 í S. Kóreu og innflytjendur og söluaðilar íhluta eru um fimm þúsund samtals. Þetta net telja forsvarsmenn Hyundai svo mikilvægt og vel virkt að ekki komi til greina að hrófla við því. Sá tími geti vissulega runnið upp að heppilegt verði að flytja framleiðsluna frá S. Kóreu, en hann sé ekki runninn upp nú.