Tímabundin lækkun eldsneytisgjalda ekki til skoðunar
Félag íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, skoraði á stjórnvöld fyirir nokkrum vikum síðan að lækka gjöld á eldsneyti. Runólfur Ólafsson, framkvæmdstjóri FÍB, segir í samtali við mbl.is í dag að félagið hafi sent erindi á stjórnvöld og óskað eftir tímabundinni skattalækkun til að mæta þessum hækkunum og það höfum við gert áður.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir ekki vera til skoðunar að lækka tímabundið gjöld á eldsneyti. „Við myndum ekki vilja grípa til örvandi aðgerða þegar það er spenna í hagkerfinu,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is. Bensínverð heldur áfram að hækka hér á landi og hefur aldrei verið dýrara.
Verð á bensíni í dag er 320,9 krónur á bensínlítra hjá N1 og 319,3 krónur hjá Orkunni. Lægsta verðið er hjá Costco þar sem verð á bensínlítra er 281,8 krónur. Hlutur íslenska ríkisins í bensínverði er í dag um 50 prósent.
„Við erum að tala um að hliðra til öðru vörugjaldinu sem er lagt á bensín, serm er föst krónutala, og að lækka olíugjaldið af díselolíunni,“ segir Runólfur á mbl.is
„Vörugjaldið á bensíni er 30,2 krónur sem við erum með sem viðmið varðandi lækkun og svo er auðvitað 24 prósent virðisaukaskattur sem leggst ofan á það þannig þetta gæti verið lækkun um 35 til 40 krónur á lítra.“
Fleiri aðilar sem hafa verið okkur samstíga
Runólfur segir að hingað til hafi stjórnvöld ekki tekið vel í erindið. „Það eru fleiri aðilar sem hafa verið okkur samstíga í þessu eins og til dæmis ASÍ þannig það er kannski núna þegar þetta virðist ekki vera einhver bóla sem stendur yfir í einn til tvo mánuði heldur er þetta því miður eitthvað ástand sem er viðvarandi.“
Bjarni Benediktsson segir í samtalinu á mbl.is að aðgerðir um skattalækkun á eldsneyti séu ekki til skoðunar í augnablikinu.
„Við höfum ekki verið að undirbúa slíkar aðgerðir og ef eitthvað er þá myndi ég hallast að því að í ljósi vaxtahækkanna og versnandi verðbólgu sem orðið hefur frá því að fjármálaáætlun var lögð fram kæmi frekar til álita að við myndum skoða leiðir til þess að auka aðhaldið og leggja þannig meira af mörkum til þess að slá niður verðbólguvæntingar.“