Tímasprengjur í umferðinni
22.11.2005
Ónýtir hjólbarðar, uppslitnir bremsuborðar og stýrisliðir og aðrir öryggisþættir eru ástæða þess að þriðji hver vöruflutningabíll frá A-Evrópu sem lögreglan í þýska sambandsríkinu Nordheim-Westfalen stöðvaði á þýskum hraðbrautum til eftirlits nýlega, fékk ekki að halda áfram fyrr en búið var að gera við. -Ástand þessara bíla er svo slæmt að þeir eru tímasprengjur á hjólum- segir innanríkisráðherra Nordheim-Westfalen, Ingo Wolf við Der Spiegel.
Vegalögreglan í Þýskalandi hefur aukið eftirlit með erlendum vöruflutningabílum á þýskum vegum og hraðbrautum, ekki síst með bílum frá Póllandi, Litháen og Lettlandi og fleiri A-Evrópulöndum. Bílarnir eru stöðvaðir og eftirlitsmenn framkvæma skyndiskoðun á þeim. Í síðustu viku voru gerðar slíkar skyndiskoðanir á 100 a-evrópskum vöruflutningabílum og rúmlega þrjátíu þeirra fengu ekki að halda áfram för. Í flestum tilfellum var það vegna slitinna eða bilaðra hemla, ónýtra hjólbarða og/eða of mikils hlassþunga. Alls voru gerðar athugasemdir við 138 atriði í bílunum. Meðal þess var ryð í grindum og burðarvirkjum bílanna, dráttarstólar og –krókar voru í ófullnægjandi lagi auk fleiri atriða.
Í frétt Der Spiegel segir að þýskir og v-evrópskir flutningabílar komi mun betur út úr skyndiskoðunum á þýskum vegum og sjaldgæft sé að þeir teljist óökuhæfir og sé bannað að halda áfram för.