Tíu ár frá baráttufundi í Stapanum
Í dag eru liðin 10 ár frá fjölmennum borgarafundi í Stapa. Fundurinn markaði upphaf baráttu Suðurnesjamanna fyrir tvöföldun Reykjanesbrautar. Fundurinn var mjög fjölmennur en yfir þúsund manns sóttu hann og í aðdraganda hans höfðu níu þúsund undirskriftir safnast undir áskorun til stjórnvalda að hefjast þegar í stað handa við tvöföldun brautarinnar. Fundurinn var haldinn í skugga hræðilegs umferðarslyss við Kúagerði þar sem þrír íbúar Reykjanesbæjar létu lífið.
Alvarleg slys voru tíð á Reykjanesbraut áður en hún var tvöfölduð og færð til þess horfs sem hún er í nú. Árið 2000 létust 6 manneskjur í umferðarslysum á Reykjanesbraut milli Hafnarfjarðar og Njarðvíkur og 15 banaslys urðu á brautinni á árunum 1990-2000. Í dag, 11. janúar 2011 eru hins vegar tæplega sjö ár síðan síðast varð banaslys síðast á Reykjanesbraut. Alls hafa hins vegar 63 mannslíf glatast á Reykjanesbraut frá árinu 1967.