Tíu bestu bílvélarnar í USA

http://www.fib.is/myndir/AudiA3_engine.jpg
Audi A3 vél - ein sú besta að mati Bandaríkjamanna.

Bandaríska bílatímaritið Wards AutoWorld hefur í 14. sinn útnefnt tíu bestu bílvélarnar í Bandaríkjunum.  Alls voru 37 bílvélar tilnefndar og urðu tvær í efsta sæti þar sem dómnefndin treysti sér ekki að gera upp á milli þeirra. Ein vél hefur verið meðal tíu bestu öll 14 árin sem þetta val hefur átt sér stað. Það er V6 vél frá Nissan sem m.a. er í Infinity. Hin nýja Mercedes Benz  V6-dísil náði nú inn á þennan lista sem til þessa hefur einvörðungu haft að geyma bensínvélar. Þá komst einnig inn á listann að þessu sinni ný V8 bensín/rafmagnsvél (tvíorkuvél) frá GM sem er í stærstu jeppum GM.

Dómnefndin hefur undanfarna tvo mánuði unnið að úrskurði sínum og borið saman vélarnar 37 sem tilnefndar voru. Ekki komast allar bílvélar inn á þennan lista og sakna margir ágætra véla sem eru í t.d. Porsche- og Ferrari bílum. Þær koma hins vegar ekki til greina því að bílarnir utan um þær kosta meir en 54 þúsund dollara en dýraari en það mega bílar ekki vera til að vélar þeirra komi til greina við þetta val.

Allt frá því að þetta val hófst fyrir 14 árum hafa átta strokka vélar verið í miklum meirihluta á listanum yfir tilnefndar bílvélar. Nú bregður hins vegar svo við að þær eru einungis tvær. Kannski má skoða það sem tímanna tákn. En 10 bestu bílvélarnar að mati hins bandaríska tímarits eru annars þessar:

1-2. Audi AG FSI 2L Turbocharged DOHC I-4

1-2. BMW AG 3L DOHC I-6

3. BMW AG 3L Turbocharged DOHC I-6

4. DaimlerChrysler AG 3L DOHC V-6 Turbodiesel

5. DaimlerChrysler AG Hemi Magnum 5.7L OHV V-8

6. Ford Motor Co. Duratec 35 3.5L DOHC V-6

7. Ford Motor Co. 4.6L SOHC V-8

8. Mazda Motor Corp. DISI 2.3L Turbocharged DOHC I-4

9. Nissan Motor Co. Ltd. 3.5L DOHC V-6

10. Toyota Motor Corp. 3.5L DOHC V-6