Tíu milljarðar í þjóðarbúið af akstri ferðamanna
Í rannsóknum sem fyrirtækið Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar vann að kemur í ljós að um 60% ferðamanna sem komu til Íslands á síðasta ári hafi leigt sér bílaleigubíl. Þetta er töluverð aukning frá árunum þar á undan. Erlendir ferðamenn óku 640 milljónir km í bílaleigum bílum hér á landi í fyrra. Þetta kom fram á ráðstefnu sem Vegagerðin stóð fyrir.
Í rannsókninni kom fram að sé miðað við að bensínlítrinn hafi kostað í kringum 200 krónur og eyðslu í kringum 8 lítra á hverja 100 km má áætla að það hafi skilað um 10 milljörðum í þjóðarbúið.
Fram kemur í könnunni að sé litið til þróunarinnar síðustu átta árin má áætla út frá Dear Visitors könnun RRF að árið 2017 hafi um 1.220 þúsund ferðamenn nýtt sér bílaleigubíla á Íslandi (61% gestanna), samanborið við um 960 þúsund árið 2016 (56%), 480 þúsund árið 2014 (48%) og 166 þúsund árið 2009 (33%). Samkvæmt þessu nýttu 7,3 sinnum fleiri ferðamenn sér bílaleigubíla á Íslandi árið 2017 en árið 2009, 2,5 falt fleiri árið 2017 en árið 2014 og 31% fleiri árið 2017 en árið 2016.
Yfir sumarmánuðina þrjá nýttu að jafnaði 68% sér bílaleigubíla, 66% ferðamanna á jaðarmánuðunum (mars, apríl, maí, september og október) og 44% ferðamanna yfir dimmustu vetrarmánuðina (janúar, febrúar, nóvember og desember).
Áætlað er að 17 sinnum fleiri erlendir ferðmenn hafi nýtt sér bílaleigubíla yfir helstu vetramánuðina árið 2017 (janúar, febrúar, nóvember, desember) en árið 2009, eða um 224 þúsund manns á móti 13-14 þúsund. Þær benda einnig til þess að um 10 sinnum fleiri ferðamenn á jaðartímunum árið 2017 (mars, apríl, maí, sept. og okt.) hafi nýtt sér bílaleigubíla en ferðamenn sömu mánuði 2009, eða um 500 þúsund á móti um 50 þúsund.
Hins vegar var fjölgunin mun minni, eða 4,8 faldast, yfir helstu sumarmánuðina (júní, júlí og ágúst), um 490 þúsund sumarið 2017 á móti 103 þúsund árið 2009. Um 60% þeirra sem leigðu bílaleigubíl árið 2017 gerðu það utan sumarmánuðina þriggja en það hlutfall var 59% árið 2016, 44% árið 2014 og 38% árið 2009.