Tíu verstu bresku bílarnir
Breskur bílavefur; iMotormag.co.uk hefur staðið fyrir vali á tíu verstu bílum breskrar bílaframleiðslu. Um fjögur þúsund manns tóku þátt í kosningunni og 24,3 prósent þeirra gáfu Austin Allegro þá einkunn að hann væri versti breski bíllinn fyrr og síðar.
1. Austin Allegro er reyndar löngu orðinn einkonar táknmynd niðurlægingarskeiðs og hruns hins þjóðlega breska bílaiðnaðar á þremur síðustu áratugum 20. aldarinnar. Bílaiðnaðurinn var þjakaður af vinnudeilum, tíðum verkföllum og skilaði neytendum bílum sem stóðust innfluttum bílum frá Evrópu og Asíu alls ekki snúning. Enda þótt Austin Allegro hafi nokkrum sinnum í könnunum verið kjörinn ljótasti bíll Bretlands þá er það tæpast sanngjarnt því að hann var ansi laglegur. En þeim sem lenda í því að eignast bíl sem er bæði mjög ryðsækinn og afskaplega bilanagjarn og erfiður í rekstri hlýtur fljótlega að fara að finnast bíll sem stöðugt er að skaprauna manni forljótur. Austin Allegro var framleiddur á árunum 1973 til 1983 og seldust alls 642.350 eintök af honum. Þegar best gekk var hann fimmti best seldi bíllinn í Bretlandi og einhverjir tugir eintaka bárust hingað til lands. Enn eru um eitt þúsund Austin Allegro á skrá í Bretlandi.
2. Morris Ital, 23,4 prósent atkvæða. Hann var byggður á árunum 1980-1984. Framleiðandinn stal nafninu frá Italdesign og Ítalirnir voru víst lítt kátir yfir því að vera bendlaðir við þennan ljóta bíl.
3. Talbot Sunbeam, 11,5 prósent atkvæða. Hann var byggður á árunum 1977-1981. Upprunalega nafnið var Chrysler Sunbeam þar sem Chrysler eignaðist Sunbeam verksmiðjuna bresku. Þegar Peugeot eignaðist svo Sunbeam gáfu Frakkarnir bílnum hið gamla bílanafn Talbot sem ekki hafði verið í notkun lengi. Þrátt fyrir að nánast sami bíll sem Simca/Chrysler Horizon hefði verið valinn bíll ársins árið 1979 af evrópskum bílablaðamönnum, voru bílakaupendur í Bretlandi ekki sama sinnis og bíllinn seldist illa.
4. Austin Princess, 10,7 prósent atkvæða. Hann var byggður á árunum 1975-1982. Þarna var búið að þjóðnýta verksmiðjur Leyland, Austin og Morris undir nafninu British Leyland og eins og stjórnendur væru ráðvilltir og hefðu enga hugmynd um hvert skyldi stefna. Bretar gáfu honum gælunafnið The Wedge eða fleygurinn.
5. Hillman Imp, 10,6 prósent atkvæða. Hann var byggður á árunum 1963-1976. Þessi smáb´ll með vélinni afturí átti að verða keppinautur Austin Mini en þótti of dýr og of óáreiðanlegur og bilanagjarn. Rallkeppnisfólki þótti hann hins vegar ágætur sem keppnisbíll.
6. Rover 200, 5,8 prósent atkvæða. Hann var byggður á árunum 1984-2005 upphaflega í samvinnu við Honda. Margir kannast við þennan bíl úr bresku þáttaröðinni um hjónin hina snobbuðu Hyacinth Bucket og hinn kúgaða mann hennar Richard. Þáttaröðin heitir Keeping up Appearances.
7. Triumph Acclaim, 4,4 prósent atkvæða. Hann var byggður á árunum 1981-1984. Honda var í samvinnu við Triumph á þessum árum og Acclaim var síðast bíllinn í þeirri samvinnu. Hann var samansettur að 80 hundraðshlutum úr breskum hlutum.
8. Rover 800, 3,7 prósent atkvæða. Hann var byggður á árunum 1986-1999. Vinsæll sem embættisbíll ráðherra og hátt settra opinberra starfsmanna og sem lögreglubíll í Bretlandi.
9. Triumph TR7, 3 1 prósent atkvæða. Hann var byggður á árunum 1974-1981. Hönnuðurinn hét Harris Mann, sá sami og hannaði Austin Allegro. Bíllinn var síðasti TR7 sportbíllinn og þótti marka heldur dapurleg endalok þess merka bíls.
10. Morris 1800, 2,6 prósent atkvæða. Hann var byggður á árunum 1964-1975. Var valinn bíll ársins í Evrópu 1965. Segja má að þar hafi ekki gæfa og gjörvileiki sameinast í einum og sama bílnum, og ekki í fyrsta sinn og trúlega ekki það síðasta heldur.