Tjón á bílum vegna slæms ástands gatna – sumir eiga rétt á bótum

Tíðin að undanförnu hefur valdið því að margir bifreiðaeigendur hafa orðið fyrir tjóni á bílum sínum vegna slæms ástands á götum á höfuðborgarsvæðinu og víðar um land. Þetta ástand hefur sérstaklega skapast þegar klakinn bráðnar þá koma holurnar í ljós. Skemmdir verða á bifreiðum með ýmsum hætti og dekk springa. Undirvagnar bílanna er viðkvæmir fyrir viðnámi sem verður þegar þeir fara ofan í djúpar holur.

Í umfjöllun í Morgunblaðinu i dag segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, að bifreiðaeigendur sem lenti í tjónum eins og að framan greinir, spyrji FÍB hvort það eigi rétt á bótum, þá í gegnum tryggingar eða frá veghaldara sjálfum.

Í viðtalinu segir Runólfur að tryggingafélögin séu öll búin að taka undirvagnstjón inn í kaskótryggingar, það er skemmdir á undirvagni, hjólbörðum og felgum sem verða t.d. við að aka á grjót eða í holur. Þessi viðbót er tiltölulega ný af nálinni. Sum vátryggingafélög fara fram á tvöfalda eigin áhættu vegna slíkra tjóna.

 „Ef tilkynnt hefur verið um holu eða hvarf í vegi og því ekki verið sinnt með merkingu eða viðgerð getur veghaldari orðið ábyrgur fyrir tjóni sem af því hlýst. Það hafa komið upp slík mál og bíleigendur fengið bætur. Sú ábyrgð hvílir á veghaldara að grípa sem fyrst til aðgerða til að koma í veg fyrir tjón,“ segir Runólfur.

Hægt að skrá holur og skemmdir í vegi á vegbot.is

FÍB er með forritið www.vegbot.is þar sem fólk getur skráð holu eða skemmdir í vegi. Sé það gert með snjalltæki á staðnum fylgir staðsetning tilkynningunni. Forritið veit á hverra forræði allar götur og vegir á landinu eru og fer hver tilkynning til rétts veghaldara. Gáttin hefur verið opin í á annað ár.

„Allir veghaldarar á landinu, sveitarfélög og Vegagerðin, taka beint á móti þessum tilkynningum frá Vegbót, nema Reykjavíkurborg. Borgin vill að fólk skrái þetta sjálft í ábendingargátt borgarinnar. Það er eins og borgin vilji ekki fá beinar upplýsingar um það sem varðar öryggi vegfarenda,“ segir Runólfur.

Hann segir að starfsmaður FÍB slái nú ábendingar um vegarskemmdir í Reykjavík, sem berast í Vegbót, inn í ábendingargátt borgarinnar á skrifstofutíma. Því getur liðið nokkuð þar til ábendingar berast borginni.

Í samtalinu við Morgunblaðið segir Runólfur að við þessar aðstæður ráðleggi hann almenningi fyrst og fremst að sýna aðgát en klakabrynja er víða yfir götum.

Hefði átt að vera borð fyrir báru til að mæta þessu

,,Það getur verið vont að missa bíla ofan í svoleiðis, sérstaklega litla bíla. Þetta skapar líka hættu á að bílar renni saman. Sumar húsagötur eru eins og verstu fjallvegir yfirferðar. Við höfum gagnrýnt að göturnar hafi ekki verið betur hreinsaðar. Okkur er ljóst að tíðarfarið er óvenjulegt og álag mikið. En við búum í landi þar sem búast má við svona veðurfari. Veturinn í fyrra var mildur og því hefði átt að vera borð fyrir báru til að mæta þessu,“ segir Runólfur Ólafsson í samtalinu við Morgunblaðið.