Tjónabílarnir - hvað verður um þá?
Tryggingafélagið Sjóvá gengst n.k. fimmtudag, 26. mars fyrir morgunverðarfundi um tjónabíla, skráningu þeirra og eftirlit með viðgerðum á þeim. Framsögumenn á fundinum verða Auður Daníelsdóttir framkvæmdastjóri tjónasviðs Sjóvár, Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB og Kristófer Ágúst Kristófersson Samgöngustofu. Fundarstjóri verður Malín Brand blaðamaður og formaður klúbbs bílablaðamanna á Íslandi - BÍBB. Fundurinn verður öllum opinn. Hann fer fram í húsakynnum Sjóvár, Kringlunni 5 og hefst kl 08.00.
Allir eru velkomnir en þeir sem vilja sækja þennan morgunverðarfund geta skráð sig hér.
FÍB hefur um langt skeið gert alvarlegar athugasemdir við þau lausatök sem viðgengist hafa í þeim málum sem snerta tjónabíla, skráningu þeirra og eftirlit með þeim. Tryggingafélög sem leyst hafa til sín skemmda bíla hafa selt tjónaða bíla í útboðum, Margir þessara bíla hafa verið gerðir upp af vankunnáttu og með handarbaksvinnubrögðum og síðan seldir grunlausum kaupendum sem svo vakna upp við þann vonda draum að hafa keypt köttinn í sekknum.
Því er það fagnaðarefni að það sé einmitt tryggingafélag sem nú tekur frumkvæði að því að ræða þessi mál og leita lausna.