Tökum til greina tilmæli Neytendastofu


http://www.fib.is/myndir/Gr%E6nirVW.jpg

HEKLA hf. ætlar að taka tillit til niðurstöðu Neytendastofu um auglýsingar fyrirtækisins um Grænan Volkswagen enda þótt forsvarsmenn fyrirtækisins séu ósammála niðurstöðunni.

Upphaf málsins er það að Neytendasamtökin gerður athugasemd við texta í auglýsingum Heklu um kolefnisjöfnun nýrra VW bíla með því að gróðursetja tré í skógræktarsvæði við rætur eldfjallsins Heklu. Í auglýsingunum var talað um grænan Volkswagen. Neytendastofa tók málið upp og er niðurstaða hennar sú að notkun á orðinu grænn geti verið villandi í þessu samhengi.

Í frétt frá HEKLU hf segir m.a: „Þrátt fyrir að við séum ósammála niðurstöðu Neytendastofu munum við taka tillit til hennar því við teljum mikilvægt að rýra ekki það traust sem þarf að ríkja á milli viðskiptalífsins og neytenda. Til að taka af allan vafa hefur HEKLA hins vegar ákveðið að óska eftir úrskurði áfrýjunarnefndar neytendamála í þessu efni.“

...„Kolefnisjöfnunarátak HEKLU er án efa eitt stærsta umhverfisátak sem bílaumboð hér á landi hefur ráðist í. Mikilvægt er að um það ríki góð sátt og að öllum misskilningi sé eytt. Að því viljum við stuðla um leið og við vekjum athygli á þeim góða árangri sem náðst hefur í þróunarstarfi Volkswagen verksmiðjanna sem miðar að því að draga úr mengun og minnka eldsneytisnotkun VW.“