Tollmúr um höfuðborgarsvæðið

Fjölmiðlar hafa undanfarna daga greint frá því að samkomulag sé nánast í höfn milli ríkisins og lífeyrissjóðanna um að sjóðirnir fjármagni ákveðnar vegaframkvæmdir með rúmlega 30 milljarða framlagi. Þetta fé verði greitt til baka á þann hátt að sérstakt hlutafélag eða –félög verði stofnuð sem síðan endurheimti framlög lífeyrissjóðanna og vexti af þeim með því að innheimta veggjöld. Tilgangur félaganna er að annast framkvæmdir og þar með talið áætlanagerð, hönnun, útboð, samningsgerð við verktaka og annað sem nauðsynlegt er til að ljúka framkvæmd og taka gjald af umferð um viðkomandi vegi.  Spurning hvort verið sé að setja á laggirnar nýja Vegagerð ríkisins? Ætlar Vegagerðin ohf að semja við Vegagerðina um hluta verkþátta?  Er þetta leiðin til að búa til ný störf?

http://www.fib.is/myndir/Tollhlid.jpg
Er þetta það sem koma skal á öllum leiðum inn
og út úr höfuðborg Íslands?

Hugmyndin er að leggja svokallaðan 2+2 Suðurlandsveg í stað 2+1 vegar þvert á ráðleggingar sérfræðinga Vegagerðarinnar og fagaðila á sviði umferðaröryggis.  Það er undarlegt að endurskoða ekki þann hluta framkvæmdaáætlana með það að leiðarljósi að auka umferðaröryggi og spara fé.  

Með þessari vegatollainnheimtu er vikið með róttækum hætti frá þeirri aðferð sem alla tíð hefur verið um fjármögnun vegaframkvæmda og viðhalds vega og sátt hefur ríkt um. Hún er sú að innheimta vegafé með sköttum á bifreiðaeldsneyti. Eldsneytisskattar og aðrir skattar sem lögð eru á farartæki og umferð á Íslandi eru um þessar mundir með því hæsta sem gerist nokkursstaðar. Rúmur helmingur þess verðs sem neytendur greiða fyrir eldsneytið á bifreiðar sínar eru skattar eða um 35 milljarðar króna árlega. Þeir skattar fara þó aðeins að hluta til vegaframkvæmda. Það má því með réttu segja að vegfarendur séu þegar búnir að borga fyrir þessar fyrirhuguðu vegaframkvæmdir.

Að taka upp viðbótarskattheimtu í formi veggjalda er svo stórfellt frávik frá því fyrirkomulagi sem sátt hefur ríkt um greiðslur umferðarinnar fyrir notkun vegakerfisins alla tíð. Almenn sátt hefur ríkt um fyrirkomulagið þótt deilt hafi verið um upphæð umferðarskattanna. Upptaka vegatolla á tiltekna vegi í ofanálag við núverandi eldsneytisskatta og aðra notkunarskatta er alger stefnubreyting og það hlýtur að þurfa að spyrja þjóðina fyrst hvort hún sé því samþykk eða ekki.

En til viðbótar, þá er þessi kúvending  ríkisvaldsins líka sérlega ámælisverð fyrir þær sakir að ætlunin er að leggja viðbótarskatta í formi vegatolla á umferð inn og út úr höfuðborginni en ekki á umferð annarsstaðar á landinu. Er ætlunin virkilega að einangra höfuðborgina. Á hún ekki lengur að vera höfðuborg alls landsins og landsmanna allra?

Einkafjármögnun og –framkvæmd í vegamálum og gjaldtaka af umferð á hraðbrautum er vissulega þekkt í löndunum í kring um okkur, t.d. Frakklandi. Þar er þess þó alltaf gætt að fólk hafi valkost. Vilji það ekki greiða vegtoll, t.d. af akstri frá Luxembourg til Parísar er þjóðvegurinn þó alltaf ókeypis valkostur. Hvaða valkost munu þeir hafa sem aka vegina milli Hveragerðis og Rerykjavíkur, Keflavíkur og Reykjavíkur eða Borgarfjarðar og Reykjavíkur hafa? Engan! Ekki nokkurn.

RÓ/SÁ