Tölvuþrjótar gætu ráðist á tölvur bílanna
04.08.2005
Tölvubúnaður í bílum verður stöðugt meiri og því gætu bílar í náinni framtíð orðið skotmark fólks sem hefur ánægju af því að búa til tölvuveirur og eyðileggja með því tölvur og tölvugögn annarra. Reuters fréttastofan greinir frá þessu.
Sérstaklega er hætt við að bílar sem eru með þráðlaust Netsamband um Bluetooth-kerfi sem keyrt er af stjórntölvu bílsins og getur hlaðið niður tónlist af netinu og miðlað símtölum. Hér gætu óprúttnir tölvuþrjótar séð sér leik á borði og sent tölvuveirur og ýmiskonar villukóða inn í stjórntölvur þessara bíla og ruglað þær gersamlega í ríminu og jafnvel eyðilagt þær. Yevgeni Kaspersky er sérfræðingur í tölvuveirum og veiruvörnum. Hann segir við Reuters að ef Bluetooth-farsími bílsins og stjórntölva hans eru samtengd þá þýði það einfaldlega að fyrr eða síðar muni tölvuþrjótar finna veilur í stýrikerfunum og nýta sér þær.
Enginn bílaframleiðandi hefur enn tilkynnt um tölvuveiruárás á bíla, en talsmenn stærstu bílafyrirtækjanna segja að vel sé fylgst með þessum málum af þeirra hálfu.