Top Gear bílaþátturinn hundskammaður
Breski blaðamaðurinn George Monbiot sakar stjórnendur þáttarins TopGear á BBC sjónvarpsstöðinni um að víkja verulega frá meginreglum BBC stofnunarinnar um hlutlæga umfjöllun og hreinlega fara vísvitandi ranglega með staðreyndir. Þetta kemur fram í grein Monbiot á bloggsíðu hans.
Í grein sinni vitnar Monbiot í innri reglur BBC um að gæta fyllstu hlutlægni og nákvæmni í meðferð upplýsinga og staðreynda og að leitast ávallt við af fremsta megni að leiða ekki lesendur, hlustendur og áhorfendur í villur með röngum eða misvísandi málflutningi. BBC skuli ávallt vera sjálfstætt, hlutlaust og heiðarlegt í allri umfjöllun og að fréttamenn og þáttaþulir skuli ávallt vera vel upplýstinr um málin áður en þeir senda út fréttir sínar eða umfjallanir.
En því miður virðast þessar reglur BBC ekki þurfa að ná til TopGear að mati Monbiot. Þáttastjórum virðist leyfast allt. Dæmi um það sé umfjöllun þeirra um rafbíla þar sem hlutleysið hafi fengið að sigla sinn sjó og rafbílarnir afgreiddir sem ónothæf farartæki. Allar upplýsingar og staðreyndir um bílana hafi verið viljandi affærðar og mistúlkaðar út og suður til að falla að fyrirfram ákveðnum dómi þáttastjóra um rafbíla.
Nú hefur Tesla, framleiðandi Tesla Roadster rafbílsins höfðað mál gegn BBC vegna umfjöllunar TopGear þar sem fullyrt var að drægi bílsins væri aðeins 55 mílur á rafhleðslunni en ekki 211 eins og framleiðandi heldur fram. Talsmenn Tesla segja að allt prófunarferlið í TopGear hafi verið sviðsett til að kreista fram fyrirfram ákveðna niðurstöðu. Og nú er annað samskonar mál komið upp í sambandi við prófun TopGear á rafbílnum Nissan Leaf sem nýlega var send út.
Í útsendingunni sést þegar þeir Jeremy Clarkson og James May aka af stað áleiðis til Cleethorpes í Lincolnshire, um 60 mílna leið. Bíllinn verður óvænt straumlaus á leiðinni og þarf að ýta honum áfram. Niðurstaða þeirra félaga er sú að rafbílar eigi sér enga framtíð. En varð bíllinn óvænt rafmagnslaus?. Nei alls ekki segir Monbiot því að Nissan hafði komið fyrir búnaði í bílnum áður sem sendi frá sér upplýsingar um hleðslustöðu rafhlaðanna. Samkvæmt þeim upplýsingum var bíllinn afhentur TopGear með fullhlöðnum rafgeymum og starfsmenn TopGear hafi síðan afhlaðið geymana niður í 40% hleðslu áður en þeir Clarkson og May lögðu af stað. Af þessu hljóti þeir Clarkson og May að hafa vitað því að mælir í bílnum sjálfum hafi sýnt að rafmagnið á geymunum við upphaf ferðar hafi dugað til einungis 30 mílna aksturs. Í ofanálag sýni ökuriti bílsins að bílnum hafi verið ekið í krákustígum eins og til að eyða sem mestu rafmagni. Flest bendi því til þess að ætlunin hafi verið að sýna bílinn í sem verstu ljósi, rafmagnslausan og strandaðan í Lincoln, smábæ þar sem engin hleðslustæði sé að finna.
Vissulega sé TopGear fyrst og fremst skemmtiþáttur og stundum mjög fyndinn þegar vel tekst til. Það ætti þó ekki að gefa stjórnendum sérleyfi til að víkja til hliðar öllum siðareglum og reglum um heiðarleika og hlutlægni.
Að sögn Monbiot er boðskapur TopGear fyrst og fremst pólitískur - einhverskonar öfgafull einstaklings-frjálshyggja sem láti allar umhverfisverndarhugmyndir lönd og leið og dásami hvatvísislega umferðarhegðun sem spillir friði annars fólks og jafnvel ógnar lífi þess og limum. Þátturinn ýti því undir slæma umferðarhegðun alls konar stráklinga (af báðum kynjum) sem telja það til mannréttinda sinna að mega stunda kappakstur og alls kyns aðra vitleysishegðun í almennri umferð sem oft endar með skelfingu, dauða og örkumlum. Undir ranghugmyndir af því tagi sé gjarnan ýtt í Top Gear þótt auðvitað verði þættinum sem slíkum ekki alfarið kennt um óábyrga hegðun ábyrgðarlauss og vanþroska fólks.