TopGear enn á Íslandi
Sean Baker kajakkappi á Jökulsárlóni fyrr í vikunni.
Hinn heimsfrægi bílaþáttur BBC, TopGear hefur verið við myndatökur hér á landi í vikunni en myndatökunum lauk í gær. Búast má við að innslagið sem tekið hefur verið upp nú verði sýnt á næstunni í TopGear en margir sem aðgang hafa að fjölvarpi og breiðvarpi geta séð þættina þar. Þá eru eldri TopGear þættir sýndir reglulega á Skjá einum.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem BBC tekur upp hér á landi en skemmst er að minnast heimsóknar þeirra Jeremy Clarkson aðalstjórnanda þáttarins og Richard Hammond og James May sl. vor er þeir tóku upp meginefni tveggja þátta um þrjá blæjusportbíla hér á landi. Að þessu sinni var Richard Hammond sá eini þeirra þremenninga á ferð hér á landi.
Ólafur Kr. Guðmundsson varaformaður FÍB og Richard Hammond frá TopGear við Jökulsárlón sl. þriðjudag.
Myndatökurnar fóru fram við Jökulsárlón og meðal annars kom við sögu vélknúinn kajakbátur. Kajakinn mun vera sá eini vélknúni í heiminum og nær miklum hraða eins og greina má á myndinni hér að ofan. Sá sem kajaknum stjórnar heitir Sean Baker og hefur unnið það sér til frægðar m.a. að hafa farið á kajak niður bæði Aldeyjarfoss og Goðafoss. Sean Baker mun eiga ein þrjú heimsmet skráð í heimsmetabók Guinness. Hann er styrktur af Red Bull sem einnig rekur keppnislið í Formúlu 1.
Richard Hammond sagði að þeir hefðu verið mjög heppnir með veður og birtu í myndatökunum að þessu sinni og alls ekki síður en í fyrravor. Hann ítrekaði hrifingu sína og félaga sinna á aðstæðum hér á landi til myndatöku fyrir þáttinn og öllu viðmóti og viðurgerningi hér á landi í tengslum við þessa vinnu þeirra.
Meðan á myndatökunum stóð við Jökulsárlón bar þar að rútu sem full var af breskum gagnfræðaskólastúlkum. Þær ráku frá sér skræki mikla þegar þær þekktu þarna Richard Hammond og flykktust í kring um hann og báðu um eiginhandaráritanir og myndatökur með honum. Um leið hringdu þær margar í vini sína í Bretlandi og símsendu myndir af sér með Richard til staðfestingar því hvern þær hefðu hitt þarna á, að þeirra mati, enda veraldar.