Touareg dregur Boeing 747 breiðþotu

http://www.fib.is/myndir/Touar-747-1.jpg
„Viltu veðja um hvort Touareg V10 TDI geti dregið 155 tonna þunga Boeing 747 breiðþotu?“ –Nei takk ómögulega, því það er vonlaust mál.-

Þessi orðaskipti fóru fram milli tveggja starfsmanna Volkswagen í Wolfsburg í Þýskalandi. En nokkrum mánuðum síðar ákváðu menn að láta á þetta reyna. Er hægt að láta jeppa draga breiðþotu af stærstu gerð? Og tilraunin fór fram á fimmtudaginn var á flugvelli í Dunsford í Englandi, um 40 km frá London. Tilraunin tókst, Touareginn kom flugvélinni af stað og dró hana 150 metra vegalengd.

Þótt aflmiklir jeppar eins og Touareg séu ágætis dráttarbílar þá eru þeir auðvitað ekki heppilegir til daglegra nota á flugvöllum við það að draga breiðþotur til og frá um flugvelli heimsins. Hámarksþungi aftanívagns í Touareg er 3,5 tonn en ekki 155 tonn eins og þyngd flugvélarinnar var. En auk þyngdarinnar er vélin mikið flykki með vængjum sem þekja 511 fermetra og skrokk á stærð við meðal íbúðarblokk og fjóra stóra mótora en allt tekur þetta á sig vind. Að draga þetta ferlíki aftan í venjulegum jeppa krefst því nokkurs undirbúnings.

Til að Touareginn yfirhöfuð gæti komið flugvélinni á hreyfingu þurfti að byrja á því að þyngja hann. Það var gert með því að setja þunga stálklumpa inn í hann. Þyngd stálklumpanna var samtals 4,345 tonn. Heildarþyngd bílsins með þessu hlassi öllu varð því sjö tonn og 30 kíló. Þyngdardreifingin var þannig að á framöxli hvíldu 2.755 kíló en á afturöxli 4.275 kíló. Til að mæta þessari miklu aukaþyngd var loftþrýstingurinn í dekkjunum aukinn í 4,5 loftþyngdir. Að þessu loknu var dráttarsláin tengd milli nefhjóla vélarinnar og dráttarkúlu jeppans.

Dísilvélin í Touareg bílnum er V10 með vinnslu eða tog upp á heila 750 Newtonmetra. Ökumaðurinn, Uwe Krieghoff setti jeppann í læst fjórhjóladrif og í lága drifið og valdi 2. gír í handvirkniham á gírskiptistönginni til að forðast í lengstu lög að bíllinn spólaði, gaf vélinni rólega inn og eftir fáeinar sekúndur byrjuðu öll 18 hjól flugvélarinnar að snúast. Um leið og hreyfing var komin á vélina gat skriðið aukist og Krieghoff gaf meir inn og steig olíugjöfina niður til hálfs og hraðinn jókst smám saman upp í 8 km/klst. Eftir 150 metra sleppti Krieghoff olíugjöfinni og allt ækið hægði á sér uns það stöðvaðist. http://www.fib.is/myndir/Tour-747-2.jpg

Eftir aksturinn var bíllinn skoðaður vandlega og fundust engin merki um skemmdir í honum eftir þessi átök.