Toyo harðskeljadekk
Eftir að nýjasta tölublað FÍB blaðsins með nýrri vetrardekkjakönnun kom út, hefur talsvert verið spurt um ástæður þes að eitt mest auglýsta vetrardekkið hér á landi; Toyo harðskeljadekkið, sé ekki með í könnuninni.
Því er til að svara að vetrardekkjakönnunin okkar er gerð fyrir systurfélög FÍB í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi og nokkur bílatímarit í þessum löndum og í Rússlandi. Könnunin er gerð í Ivalo í N. Finnlandi og er mjög umfangsmikil og flókin í framkvæmd og krefst sérþekkingar og aðstöðu sem ekki er til hér á landi. Því hefur FÍB blaðið valið að birta þessa vetrardekkjakönnun því að telja má hana einna marktækasta fyrir okkar vetraraðstæður. Hægt er að lesa hana í nýjasta FÍB blaðinu og hér á frétta- og upplýsingavef FÍB.
Hjólbarðaframleiðendur í heiminum skipta hundruðum og það er augljóst að ekki er hægt að gera þeim öllum jafn hátt undir höfði í könnun sem þessari. Því er sú leið farin að velja fyrst algengustu tegundirnar á því markaðssvæði sem könnunin nær til og síðan velja þau þeirra sem framleiðendur hafa lagt sig sérstaklega fram um að gera þannig úr garði að þau spjari sig sem best í hverskonar vetrarfæri á norðurslóðum Evrópu. Þau dekk sem tekin eru inn í þessa árlegu rannsókn í Ivalo í Finnlandi eru því þau sem algengust eru á norðlægum slóðum Evrópuálfu og sérstaklega gerð fyrir vetrarakstur þar.
Einhverra hluta vegna virðast Toyo vetrardekk ekki hafa náð sömu fótfestu í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi og hér á landi og eru af þeim sökum ekki tekin með í þessari könnun sem birtist hvert haust í FÍB blaðinu. Það að þau eru ekki með táknar alls engan gildisdóm yfir þeim. Við hjá FÍB blaðinu vitum að þeir sem notað hafa Toyo dekkin hér á landi eru flestir ánægðir með þau og svo er líka um ýmsar fleiri tegundir sem hér eru á markaði en birtast ekki í fyrrnefndri könnun.
Þótt Toyo vetrardekk virðist ekki fyrirferðarmikil í Evrópu eru þau á hinn bóginn með talsvert sterka markaðshlutdeild í Kanada og þar eru þau auglýst sem sérstaklega hönnuð til að mæta sem best hörðum vetraraðstæðum þar. Hér má sjá umsögn um Toyo vetrardekk úr kanadískri vetrardekkjakönnun og hér aðra.