Toyota aftur stærst
Toyota Motor Corp hefur aftur náð fyrsta sætinu sem söluhæsti bílaframleiðandi heims. General Motors er í öðru sæti og Volkswagen í því þriðja á árinu 2012. Reuters fréttastofan greinir frá þessu.
Toyota seldi alls 9.75 milljón farartæki af öllum stærðum og gerðum um allan heim á nýliðnu ári. Þetta er mesta árssala Toyota í 75 ára sögu fyrirtækisins. Þetta er auk þess 22,6 prósenta söluaukning frá árinu á undan.
Þetta er niðurstaða lokauppgjörs Toyota fyrir árið 2012. Niðurstaðan er nokkurnveginn samhljóða spám sem gefnar voru út í byrjun desembermánaðar. Nokkurt afrek hlýtur það að teljast að endurheimta fyrsta sætið sem Toyota hélt 2008-2010, en tapaði 2011 eftir stórinnkallanir og mjög neikvæða og óvægna umfjöllun um meintan galla í bensíngjöf bíla – galla sem svo aldrei tókst að staðfesta óyggjandi. Síðan riðu jarðskjálftarnir miklu yfir Japan og lögðu m.a. íhlutaverksmiðjur í rúst. Þar á ofan urðu mikil flóð í Thailandi þar sem Toyota rekur bílaverksmiðjur. Þessar hremmingar urðu til þess að Toyota féll ofan í þriðja sætið árið 2011 á eftir GM og VW.
Auk Toyotabíla eru undir regnhlíf Toyota/Lexus bílategundirnar Daihatsu og Hino vörubílarnir. Báðar þessar tegundir voru talsvert algengar hér á landi í kring um 1980.