Toyota byggir Prius í Kína
16.12.2005
Byrjað er að framleiða Toyota Prius tvinnbíla í Kína. Kínverskt bílafyrirtæki sem heitir FAW Group byggir bílana. Markmiðið er að selja 3.000 bíla í Kína á árinu 2006.
Toyota þykir með þessu hafa stigið talsvert stórt skref í átt að því markmiði sínu að gera tvinnbíla að einskonar heimssamnefnara fyrir mjög sparneytna bíla með því að markaðssetja bensín/rafmagns tvinnbíla sína á einu stærsta og hraðast vaxandi bílamarkaðssvæði heimsins.
„Þetta er í samræmi við nýja bílamálastefnu kínverskra stjórnvalda sem hvetur til tvinnbílanotkunar. Kínversk stjórnvöld stefna að því að innleiða staðla um útblástursmengun svipaða og gilda í Bandríkjunum og Evrópu, sagði Yoshimi Inaba forstjóri Toyota við athöfn í Prius samsetningarverksmiðjunni í Changchun í norð-austanveru Kína þegar framleiðslan byrjaði. „Það er einlæg ósk mín að þeir Priusbílar sem hér verða byggðir muni verða til þess að notkun tvinnbíla verði almenn í Kína,“ sagði forstjórinn ennfremur. Þetta er í fyrsta sinn sem tvinnbílar frá Toyota eru framleiddir utan Japans. Fyrr á árinu hafa bæði GM og Volkswagen tilkynnt að í athugun sé að byggja tvinnbíla í Kína í samvinnu við þarlenda samstarfsaðila.