Toyota er stærst

Bílasölutölur ársins 2010 í gervöllum heiminum sýna að enn er Toyota stærsti bílaframleiðandi veraldar. Inkallanirnar miklu á Toyotabílum á árinu breyttu því ekki, gagnstætt því sem margir trúðu, heldur þvert á móti jókst sala Toyotabíla á heimsvísu. Sömuleiðis sótti GM mjög í sig veðrið á nýliðnu ári og sama er að segja um VW.

Frá því snemma á síðustu öld var GM stærsti bílaframleiðandi veraldar, en Toyota hefur sótt jafnt og þétt á og minnkaði forskot GM, ekki síst á heimamarkaði GM, Bandaríkjunum. Þegar svo Toyota dró GM uppi árið 2007 hafði GM verið stærst í heiminum í 76 ár. Og Toyota hélt áfram að bæta við sig og árið eftir; 2008 seldust 8,97 milljón Toyotabílar í heiminum en 8,35 milljón GM bílar. Svo gekk kreppuárið 2009 í bílageiranum í garð og allt fór á annan endann, ekki síst hjá GM. Á síðasta ári tók öldurnar aftur að lægja og GM hefur tekist furðu vel að rétta úr kútnum með því að fækka stórlega vörumerkjum og koma fram með nýjar og áhugaverðar gerðir bíla og auka hlut sinn á Bandaríkjamarkaðinum. Þar tapaði Toyota hins vegar 0,4 prósenta markaðshlutdeild en jók hlut sinn á heimsvísu um 8 prósent. Heimssalan hjá Toyota reyndist þannig árið 2010 verða 8,42 milljónir bíla og eru þá meðtaldar undirtegundirnar Lexus, Hino og Daihatsu.

Á árinu 2010 hélt GM áfram að fækka vörumerkjum sínum og eru þau nú aðeins fjögur. Fækkunin dró þó ekki úr áhuga bílakaupenda á GM bílum því að salan á þeim jókst um 12 prósent miðað við árið á undan og endaði í 8,39 milljón bílum. Mestu munaði um aukna bílasölu í Kína en þar jókst hlutdeild GM um 29 prósent.

Það er því vart sjónarmunur milli Toyota og GM sem báðir ættu að gæta vel að þriðja keppinautinum sem er VW. Stjórnendur VW vinna kappsamlega að því yfirlýsta markmiði sínu að verða stærst í heimi fyrir árið 2018 og er á stöðugri uppleið. VW jók hlutdeild sína í heimsmarkaðinum um 14 prósent árið 2010 og seldi alls 7,14 milljón bíla.