Toyota fer ekki frá Íslandi

-Toyota ætlar ekki að fara að dæmi McDonald´s og yfirgefa Ísland enda þótt mjög fáir bílar seljist á Íslandi um þessar mundir og hið íslenska innflutnings- og dreifingarfyrirtæki Toyota sé komið í hendur bankanna og eigandi þess á kúpunni.- Þetta segir Tadashi Arashima forstjóri Toyota Europe í frétt Reuters fréttastofunnar. Fréttamaður Reuters ræddi við Arashima á bílasýningunni í París þann 3. þ.m.

-Markaðshlutdeild Toyota á Íslandi er mjög stór, eða 25 prósent sem er gott fyrir eftirmarkaðinn,- sagði Arashima. Hann sagði bankana vera að leita kaupenda að íslenska Toyota innflutnings og sölufyrirtækinu og bætti við að Toyota Europe hygðist ekki eignast það og reka með svipuðum hætti og í nokkrum helstu markaðslöndum Evrópu – t.d. Þýskalandi, Frakklandi, Ítalíu, Spáni og Bretlandi og sumum Norðurlandanna.

http://www.fib.is/myndir/TadashiArashima.jpg
Tadashi Arashima forstjóri Toyota Europe.

Toyota, sem nú er stærsti bílaframleiðandi heims, hefur hingað til ekki lagt mikla áherslu á sölu bíla sinna í Evrópu heldur einbeitt sér að hinum risavaxna Bandaríkjamarkaði. Reuters segir að Arashima hafi heldur ekki hingað til orðið vel ágengt með að sannfæra yfirmenn sína í höfuðstöðvum Toyota í Japan að Evrópumenn væru hrifnir af dísilvélum sem hvorki Japanir né Bandaríkjamenn eru. Því hefur framboð Toyotafólksbíla með dísilvélum verið fremur rýrt.

Toyotabílar eru þó framleiddir í Bretlandi og Frakklandi og milli 60 og 70 prósent þeirrar framleiðslu selst í heimalöndum verksmiðjanna. Toyota hefur ekki tekist að ná góðri fótfestu fyrir lúxusmerki sitt Lexus í Evrópu sem þar keppir einkum við þýska lúxusbíla sem fást með dísilvélum. Evrópumenn finna Lexusnum það helst til foráttu að hann fáist ekki með dísilvélum en sé með talsvert stórar bensínvélar en áhugi fyrir þeim hefur farið minnkandi hjá evrópskum bílakaupendum.  Þveröfuga sögu er hins vegar að segja frá Bandaríkjunum. Bandaríkjamenn kjósa enn bíla með stórum vélum. „Enda þótt þeir aki rólega elska þeir enn stóru vélarnar,“ sagði Arashima við Reuters.

Fyrir nokkrum dögum birtist frétt á Stöð 2 um að skilanefnd Landsbankans væri að yfirtaka rekstur Toyota á Íslandi. Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota á Íslandi sendi þá út fréttatilkynningu um að þetta væri ekki rétt. Skilanefnd Landsbankans væri ekki við það að taka yfir rekstur Toyota á Íslandi eins og greint var frá í frétt Stöðvar 2. Í tilkynningunni sagði orðrétt m.a: „Unnið hefur verið að því í samvinnu við skilanefndina að endurskipuleggja rekstur og fjárhag fyrirtækisins en aldrei hefur staðið til að Landsbankinn eða aðrar fjármálastofnanir taki yfir rekstur Toyota á Íslandi. Um þetta hefur ríkt gagnkvæmur skilningur milli Toyota og skilanefndar.“