Toyota innkallar 15 þúsund bíla í Danmörku
01.06.2006
Toyota hefur innkallað á heimsvísu um það bil eina milljón bíla vegna galla í stýrislið. Rúmlega 15 þúsund eigendur Toyotabíla í Danmörku hafa fengið tilkynningu frá innflytjanda Toyota í landinu um að snúa sér til næsta söluumboðs til að fá skipt út gölluðum lið milli stýrisleggs og stýrisvélar. Talin er hætta á að liðurinn gæti brostið ef einhverskonar neyðartilvik í akstri kæmi upp og mikið þyrfti skyndilega að beygja. Þetta kom fram í fréttum danska ríkisútvarpsins í fyrradag í samtali fréttamanns við upplýsingafulltrúa Toyota í Danmörku.
Í Danmörku snýst innköllunin um bíla af gerðunum Toyota Avensis sem framleiddir voru frá janúar 2003 til og með desember 2005 (14.298 bílar) og Toyota Corolla sem framleiddir voru frá júlí 2001 til mars 2004 (855 bílar).
Upplýsingafulltrúi Toyota í Danmörku segir að það taki um það bil eina klst. að skipta út hinum gallaða stýrislið fyrir nýjan sterkari. Hann tekur jafnframt fram að gallaði liðurinn sé alls ekki í öllum bílunum sem innkallaðir hafa verið, en umræddar framleiðsluseríur séu innkallaðar í öryggisskyni.